Lést eftir að sjúkrabíll var sendur í vitlaust hús

Steve Cooke ásamt tveimur sonum sínum.
Steve Cooke ásamt tveimur sonum sínum. Ljósmynd/Katie Milne

Fjögurra barna faðir í Bretlandi lést af völdum kórónuveirunnar á jóladag í fyrra, eftir að sjúkrabíl, sem sendur var eftir honum, var gefið vitlaust heimilisfang.

Í frétt BBC um málið segir að Steve Cooke, 36 ára, hafi fundist látinn á heimili sínu daginn eftir.

Kona hans, Katie Milne, segir að Cook hafi orðið fyrir óréttlæti og að hann væri enn á lífi ef starfsmaður neyðarlínunnar hefði gefið sjúkraflutningamönnum rétt heimilisfang hans.

Talsmaður sjúkrabílaþjónustu suðausturstrandar Englands (Secamb) segir að verið sé að skoða málið og fleiri slík, til þess að koma í veg fyrir að eitthvað þessu líkt komi upp aftur.

Þegar neyðarkall Cookes barst, hafði Secamb nýverið gefið það út að gríðarlegt álag væri á þjónustu þeirra vegna kórónuveirufaraldursins.

Alvarlegar aðfinnslur

Cooke hringdi í sjúkrabíl á jóladag í fyrra, greinilega þjáður, og sagðist eiga í erfiðleikum með andardrátt. Hann hafði greinst með veiruna tveimur dögum áður.

Sá sem við símtalinu tók átti erfitt með að skilja Cooke og sendi sjúkraflutningamenn að vitlausu heimilisfangi, aðeins fimm metrum frá heimili Cooke.

Þegar sjúkraflutningamenn komu að tómri íbúð hringdi starfsmaður neyðarlínunnar í Katie Milne, sem þá var með fjögur börn þeirra í sinni umsjá.

Dánardómstjóri komst að þeirri niðurstöðu að starfsmaður neyðarlínunnar tók aftur niður rangt heimilisfang, hlustaði ekki á fyrirmæli Milne og sleit símtalinu við hana eftir aðeins 62 sekúndur.

„Það er mjög skammur tími í ljósi þeirrar alvarlegu beiðni, sem hafði borist, um að finna þyrfti alvarlegan veikan sjúkling og koma honum til aðstoðar,“ sagði Sonia Hayes aðstoðardánardómstjóri við BBC.

Ekki var hringt aftur í Katie Milne þegar sjúkraflutningamenn gátu ekki staðsett hinn veika Cooke og engin tilraun var gerð til þess að hlusta aftur á upphaflega símtalið við hann.

Sjúkraflutningamenn fóru sína leið þegar ekki tókst að finna Cooke og sinntu öðrum útköllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert