Lyfjarisi sem ESB samdi við breytir um takt

AFP

Franski lyfjarisinn Sanofi, sem Evrópusambandið samdi við um bóluefni gegn Covid-19, gaf það út í dag að fyrirtækið ætli ekki að halda áfram að þróa það bóluefni gegn Covid-19 sem fyrirtækið hefur unnið að í um ár.

Sanofi ætlar heldur að einblína á þróun nýs bóluefnis, líka gegn Covid-19, í samstarfi við breskan lyfjaframleiðanda. Fyrirtækin ætla að sameina krafta sína og þá tækni sem þau telja að virki vel til þess að berjast gegn kórónuveirunni.

Samningur Evrópusambandsins við Sanofi liggur fyrir. Ísland á aðild að bóluefnasamstarfi Evrópusambandsins en samningagerð Íslands við Sanofi er ekki hafin. Þá liggja upplýsingar um fjölda skammta ekki fyrir. 

Óvissa ríkir enn um skráningu og afhendingartíma en gera má ráð fyrir að það verði í fyrsta lagi á fjórða ársfjórðungi,“ segir á Covid.is.

Framkvæmdastjóri segir nýja bóluefnið veita sterkt mótefnasvar

Þrátt fyrir að niðurstöður fyrsta og annars fasa rannsókna hafi verið jákvæðar hefur lyfjaframleiðandinn tekið ákvörðun um að fara ekki í gegnum þriðja fasa rannsókn. Sú rannsókn hefði verið síðasta rannsóknin sem Sanofi hefði þurft að fara í gegnum á leið sinni til markaðsleyfis. 

Ástæðan er sú að Sanofi telur að bóluefnið gæti orðið of seint á markaðinn, þrátt fyrir að útlit hafi verið fyrir að fyrirtækinu myndi takast að framleiða 12 milljarða skammta fyrir lok árs. 

Niðurstöður úr þriðja fasa rannsókn á öðru bóluefni, sem Sanofi hefur þróað í samstarfi við breska lyfjaframleiðandann GlaxoSmithKline, eru væntanlegar fyrir árslok. 

Fyrirtækin sameina krafta sína í bóluefninu með mótefnavaka sem þróaður er af Sanofi og tækni GSK sem á að styrkja ónæmissvörun fólks eftir mólusetningu. Frumniðurstöður rannsókna á bóluefninu sýna, að sögn Sanofi, að 91 til 100 prósent þeirra sem fá bóluefnið mynda mótefni um tveimur vikum eftir sprautu númer tvö. 

„Mótefnasvarið er sterkt,“ sagði Thomas Triomphe, varaframkvæmdastjóri bóluefnaframleiðslu Sanofi, við AFP. 

Eins og áður hefur komið fram veita bóluefnin sem nú eru í umferð gegn Covid-19 ekki jafn góða vörn gegn Delta-afbrigði veirunnar og upphaflegu afbrigði hennar. Því hefur fjöldinn allur af bólusettu fólki smitast af kórónuveirunni. Bóluefnin virðast samt sem áður veita mjög góða vörn gegn alvarlegum veikindum. 

Fréttin hefur verið uppfærð með þeim upplýsingum að ESB hafi samið við Sanofi. Ísland á aðild að samningi ESB en Ísland hefur ekki undirritað samning við Sanofi.

mbl.is