Samskipti Bandaríkjanna og Brasilíu í húfi

Yfirlýsingar Jair Bolsonaro svipa mikið til yfirlýsinga Trump fyrir forsetakosningarnar …
Yfirlýsingar Jair Bolsonaro svipa mikið til yfirlýsinga Trump fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra. AFP

Fjórir öldungadeildarþingmenn úr röðum Demókrataflokksins hafa sent Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna bréf þess efnis að samskipti Bandaríkjanna og Brasilíu væru í húfi komi Jair Bolsonaro forseti Brasilíu ekki til með að virða lýðræðislegar niðurstöður kosninga þar í landi í komandi forsetakosningum sem haldnar verða í október á næsta ári.

Bolsonaro sem var einn helsti bandamaður Donald Trump fyrrum forseta Bandaríkjanna hefur sagt að íbúar Brasilíu gæti séð sambærilega hluti gerast þar ytra líkt og skeði í óeirðunum 6. Janúar síðastliðinn þegar að stuðningsmenn Donald Trump réðust inn í þinghúsið í Washington.

Vafasamar yfirlýsingar Bolsonaro

Þingmennirnir sendu Blinken bréfið í kjölfar yfirlýsinga Bolsonaro um lögmæti kosninganna og að hann væri ekki viss hvort hann myndi játa sig sigraðan í kosningunum á næsta ári verði það niðurstaða kosninganna.

Í bréfinu sagði meðal annars að „slík orðræða væri hættuleg í öllum lýðræðisríkjum en sér í lagi í ríki líkt og Brasilíu sem í áratugi hefur sýnt fram á að geta með friðsamlegum hætti tryggt valdaskipti í kjölfar kosninga.“

Fylgi Bolsonaro hefur dregist verulega saman undanfarið og telja margir að viðbrögð hans við heimsfaraldrinum spili stórt hlutverk í því. Hann hefur þó sagt að hann muni ekki standa fyrir valdaráni en þó hafa ýmsir stuðningsmenn hans kallað eftir því að herinn grípi inn í og tryggi það að hann sitji áfram sem forseti Brasilíu.

mbl.is