Sögð hafa myrt fimm ættingja og kærasta

Nomia Rosemary Ndlovu við réttarhöld í gær.
Nomia Rosemary Ndlovu við réttarhöld í gær. AFP

Réttarhöld yfir lögreglukonu sem hefur verið sökuð um að myrða fimm skyldmenni sín og kærasta til þess að leysa út tryggingafé hafa skekið Suður-Afríku. 

Réttarhöldin standa nú yfir en þau hófust um miðjan september og hefur léttúðug framkoma Ndlovu, sem hefur t.a.m. sýnt myndavélum friðarmerki með fingrunum, þar vakið furðu.

Saksóknarar segja ýmis skyldmenni Ndlovu, frændur hennar, frænku, systur hennar og kærasta, hafa fundist látin. Fólkið hafði, að sögn saksóknara, ýmist verið barið, kyrkt eða skotið til bana. 

Ndlovu er sökuð um að hafa leyst út líftryggingar og útfarartryggingar í nafni fórnarlambanna. 

Kastaði kartöfluflögum að ljósmyndara

Ndlovu neitar sök í málinu. Hún hefur notið mikillar fjölmiðlaathygli þegar hún kastaði kartöfluflögum að ljósmyndara og hvatti lögreglu til að færa hana í fjötra. Hún hefur nokkrum sinnum tárast við réttarhöldin, sérstaklega þegar minnst er á látinn kærasta hennar.

Réttarhöldunum hefur verið frestað í tvígang eftir að Ndlovu kvartaði undan svima og verkjum í brjósti.

Segja hana hafa þénað 12 milljónir á meintum voðaverkum

Í samtali við fréttastofu AFP segir Gerard Labuschagne réttarsálfræðingur að Ndlovu sé ekki hinn hefðbundni meinti raðmorðingi. „Hún er kona, lögreglukona og [næstum] öll fórnarlömb hennar voru fjölskyldumeðlimir.“

Rannsóknarlögreglumenn segja Ndlovu hafa þénað sem nemur tæplega tólf milljónum íslenskra króna með meintum brotum sínum. Hún hefur verið ákærð fyrir morð, samsæri og svik. 

Þó að grunur leiki á um að hún hafi fengið leigumorðingja til að enda líf flestra hinna látnu þá er sagt að Ndlovu hafi sjálf séð um systur sína Audrey með því að setja eitur í te hennar og kæfa hana svo. 

Leigumorðingi hætti við

Ndlovu var gripin glóðvolg eftir að lögreglumaður í dulargervi leigumorðingja tjáði lögreglu að hún hefði óskað þess að hann brenndi hús annarrar systur Ndlovu. Áætlun hennar var, að sögn lögreglumannsins, sú að byrla systurinni og fimm börnum hennar, þar á meðal fimm mánaða gömlu barni, svefnlyf og koma sokkum fyrir í munni þeirra svo þau myndu ekki öskra þegar kveikt yrði í húsinu.

Nokkrum dögum fyrr hætti annar leigumorðingi við að myrða móður Ndlovu eftir að hann var kominn inn á heimili móðurinnar. Hann ákvað að afsala sér starfinu þegar hann sá móðurina og bað í staðinn um vatnsglas áður en hann yfirgaf heimili gömlu konunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert