Tíu ár og sviptur dönskum ríkisborgararétti

Maðurinn bjó í Kaupmannahöfn og hafði verið undir eftirliti leyniþjónustunnar.
Maðurinn bjó í Kaupmannahöfn og hafði verið undir eftirliti leyniþjónustunnar. Ljósmynd/Colourbox

Dómstóll í Danmörku dæmdi tyrknesk-danskan mann í tíu ára fangelsi í dag og svipti hann danska ríkisborgarréttinum fyrir að „skipuleggja hryðjuverkaárás“.

Maðurinn, sem er 24 ára, mun afplána dóminn í Danmörku. Eftir það verður hann fluttur til Tyrklands, að því er sagði í yfirlýsingu dómstólsins í Frederiksberg.

Maðurinn bjó í Kaupmannahöfn og hafði verið undir eftirliti leyniþjónustunnar. Hann var handtekinn í apríl í fyrra eftir að hafa keypt byssu og skotfæri.

Á heimili hans fann lögreglan fána hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.

Saksóknarar kröfðust 12 ára dóms yfir honum og sökuðu hann um að hafa keypt vopnin og skotfærin „með þeim tilgangi að efna til einnar eða fleiri hryðjuverkaárása“.

Ekkert kom fram um möguleg skotmörk.

Eftir að maðurinn fer úr landi að lokinni afplánun fær hann aldrei aftur að stíga fæti á danska grund. 

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is