Leynileg auðæfi þjóðarleiðtoga gerð opinber

Vladimir Pútín.
Vladimir Pútín. AFP

Leynileg auðæfi og viðskipti þjóðarleiðtoga, stjórnmálamanna og viðskiptajöfra hafa verið gerð opinber í einum stærsta leka á fjármálaupplýsingum í sögunni. 

Upplýsingar 35 fyrrum og núverandi þjóðarleiðtoga eru í skjölunum, þar sem fram koma upplýsingar frá aflandsfélögum. Skjölin hafa hlotið viðurnefnið Pandora-skjölin. 

Í skjölunum kemur m.a. fram að konungur Jórdaníu eigi leynilega eignir í Bretlandi og Bandaríkjunum að andvirði 70 milljóna punda, ríflega 12 milljarðar króna. Í skjölunum kemur einnig fram að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og eiginkona hans spöruðu ríflega 300 þúsund pund í stimpilgjöld við kaup á skrifstofu húsnæði í Lundúnum. Parið fjárfesti í fyrirtæki á aflandseyju sem fer með eignarhald á skrifstofunni. 

Skjölin bendla Vladimír Pútín Rússlandsforseta við leynilegar eignir í Mónakó og sýna að Andrej Babis, forsætisráðherra Tékkalands, taldi ekki fram kaup fjárfestingarfyrirtækis sem skráð var á aflandseyju á margra milljón punda húsnæði í Suður-Frakklandi. 

Pandora-skjölin koma í kjölfarið á fleiri stórum upplýsingalekum síðustu ára, m.a. Paradísarskjölunum, Panama-skjölunum og LuxLeaks-skjölunum.

Blaðamenn BBC, Guardian og fleiri miðla leiddu rannsókn á yfir 12 milljónum skjala frá 14 fjármálastofnunum í m.a. Panama, Kýpur, Singapore, Sviss og Sameinuðu arabísku furstadæmunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina