Segir allar fjárfestingar sínar löglegar

Lasso segir 10 af 14 fyrirtækjum sem minnst er á …
Lasso segir 10 af 14 fyrirtækjum sem minnst er á í skjölunum hafa verið óvirk. AFP

Guillermo Lasso, forseti Ekvador, fullyrðir að allar fjárfestingar hans séu löglegar, en í Pandóra-skjölunum kemur fram að hann hafi fjárfest í gegnum 14 fyrirtæki í skattaskjólum, flest staðsett í Panama. BBC greinir frá.

Fyrirtækjunum var hins vegar lokað þegar ríkisstjórn Rafael Correa setti lög sem bönnuðu frambjóðendum að eiga fyrirtæki í skattaskjólum, að fram kemur í skjölunum.

Lasso, sem er fyrrverandi bankastarfsmaður, mun hafa komið sér upp fjárfestingarsjóði í Suður-Dakóta, sem tók yfir eignir sjóðsins í Panama, áður en hann bauð sig fram til forseta. Úr Panamasjóðnum höfðu borist mánaðarlegar greiðslur til náinna fjölskyldumeðlima Lasso.

Forsetinn segir 10 af þeim 14 fyrirtækjunum sem minnst er á í Pandóra-skjölunum hafi verið óvirk þegar hann bauð sig fram til forseta. Þá þvertekur hann fyrir að hafa tengsl við hin fjögur. Allar fjárfestingar hans, innan sem utan Ekvador, séu löglegar.

Upplýsingar um fjármál 35 núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtoga eru í Pandóra-skjölunum en nokkrir hafa brugðist við fréttaflutningi af skjölunum í dag. Þar á meðal Vladimir Pútín, forseti Rússlands, Abdullah II Jórdaníukonungur og Andrej Babis, forsætisráðherra Tékklands, sem sækist nú eftir endurkjöri.

Pandóra-skjölin eru einn stærsti leki á fjármálaupplýsingum í sögunni, en þar koma fram upplýsingar frá aflandsfélögum.

mbl.is