Eigendur breskra fasteigna afhjúpaðir

Pandóraskjölin hafa afhjúpað leyni­leg auðæfi og viðskipti þjóðarleiðtoga, stjórn­mála­manna og …
Pandóraskjölin hafa afhjúpað leyni­leg auðæfi og viðskipti þjóðarleiðtoga, stjórn­mála­manna og viðskipta­jöfra víða um heim. AFP

Pandóraskjölin hafa svipt hulunni af eigendum ríflega 1.500 eigna í Bretlandi sem keyptar voru í gegnum aflandsfélög. Nemur áætlað verðmæti eignanna ríflega fjórum milljörðum punda eða um 700 milljörðum íslenskra króna. BBC greindi frá þessu.

Pandóraskjölin hafa afhjúpað leyni­leg auðæfi og viðskipti þjóðarleiðtoga, stjórn­mála­manna og viðskipta­jöfra víða um heim. Hefur uppljóstrun skjalanna verið nefnd einn stærsti leki fjármálaupplýsinga í sögunni.

Al-Thani-fjölskyldan á listanum

Meðal eigenda sem ljóstrað var upp um er Tina Green, eiginkona milljarðamæringsins Sir Philip Green sem átti meðal annars fataverslunina Topshop. Hún keypti eignir í gegnum nafnlaus fyrirtæki staðsett á Bresku-Jómfrúareyjunum. Meðal eignanna var 15 milljóna punda íbúð í Mayfair ásamt 10,6 milljóna punda fasteign nærri Buckingham-höll.

Þá festi Al-Thani-konungsfjölskyldan í Katar kaup á tveimur af dýrustu heimilum London í gegnum aflandsfélög. Hefur það sparað henni margar milljónir punda í skattgreiðslur, að því er kemur fram í fréttinni. Eru eignir Al-Thani-fjölskyldunnar metnar á ríflega 650 milljónir punda, eða um 114 milljarða íslenskra króna.

Úkraínski milljarðamæringurinn Gennadiy Bogolyubov á eignir í Bretlandi sem eru metnar á hátt í 400 milljónir punda, eða um 70 milljarða íslenskra króna. Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur nú verið að rannsaka hann en hundruð eigna hans verið frystar.

Eign fasteigna í gegnum aflandsfélög lögleg

Fasteignakaup í gegnum aflandsfélög eru lögleg í Bretlandi eins og stendur. Hins vegar hafa ráðherrar í Bretlandi gefið út yfirlýsingu þess efnis að ný löggjöf sé væntanleg sem kveður á um að ekki verður lengur hægt að eiga fasteignir í gegnum erlend fyrirtæki án þess að nafn eigendanna sé gefið upp. Er þetta meðal annars gert til að stemma stigu við peningaþvætti.

mbl.is