Fólk undir þrítugu fær ekki Moderna í Svíþjóð

Sprauta og lyfjaglas með bóluefni Moderna.
Sprauta og lyfjaglas með bóluefni Moderna. AFP

Lýðheilsustofnun Svíþjóðar hefur ráðlagt þarlendum stjórnvöldum að hætta tímabundið notkun Moderna-bóluefnisins gegn kórónuveirunni meðal ungs fólks. Danir og Norðmenn ítreka einnig viðvörun sína um að efnið skuli ekki notað meðal fólks yngra en 18 ára.

Svíar ganga þó lengra og segja að ekki sé óhætt fyrir fólk fætt eftir árið 1991 að þiggja bóluefni Moderna. Vísa þeir til vísbeninga um alvarlegar aukaverkanir í formi hjartagalla. 

Frekar ætti að notast við bóluefni Pfizer til þess að bólusetja þá sem falla undir áðurnefnd skilyrði. 

Samkvæmt tilkynningu frá sænsku lýðheilsustofnuninni eru ungir karlmenn líklegri til þess að fá umræddar aukaverkanir en ungar konur. Einkenni hjartatruflana fjari yfirleitt út af sjálfu sér, en þó skuli ráðfæra sig við lækni verði þeirra vart, eins og segir í tilkynningunni. 

Einkenni hjartatruflana koma helst fram vikurnar eftir að seinni Moderna-skammtur hefur verið veittur. 

Um 81 þúsund Svíar, fæddir eftir árið 1991, hafa þegar fengið sinn fyrsta skammt af bóluefni Moderna. Yfirvöld ráða nú ráðum sínum um hvað skuli gera í framhaldinu en segja ljóst að seinni skammtur af efninu verði ekki gefinn. 

mbl.is