Nítján nauðganir á elliheimili

Maður á fertugsaldri var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna …
Maður á fertugsaldri var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um 19 grófar nauðganir á dvalarheimili aldraðra sem hann starfaði á í Vestur-Svíþjóð. Hann er enn fremur grunaður um handhöfn efnis sem sýnir börn á kynferðislegan hátt og hefur áður hlotið dóma fyrir brot gegn eldri borgurum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Maður á fertugsaldri var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald í Vestur-Svíþjóð grunaður um 19 grófar nauðganir á dvalarheimili aldraðra einhvers staðar í þeim hluta landsins, eftir því sem sænska ríkisútvarpið á vesturlandinu, SVT Väst, greinir frá.

Brotin, sem maðurinn er grunaður um, áttu sér öll stað á þriggja ára tímabili, árin 2015 – 2017 þegar hann starfaði á dvalarheimilinu. „Rannsóknin er á það viðkvæmu stigi eins og er, að ég get ekki tjáð mig neitt um smáatriði málsins eða hvernig fórnarlömbin tengdust grunaða,“ segir Hediya Kurt saksóknari við SVT.

Það var ekki fyrr en í gær sem maðurinn var handtekinn þrátt fyrir að langt sé um liðið síðan meint brot áttu sér stað. „Okkur var einfaldlega ekki kunnugt um þetta fyrr, við brugðumst við eins fljótt og unnt var þegar okkur barst vitneskja um málið,“ segir Kurt enn fremur.

Áður hlotið dóma

Grunaði hefur áður hlotið dóma fyrir brot gegn eldri borgurum, svo sem eins og hálfs árs dóm fyrir stórfelldan þjófnað þegar hann starfaði við heimaþjónustu hjá öldruðum, eftir að hann hafði hætt störfum á dvalarheimilinu þar sem meint kynferðisbrot áttu sér stað. Auk framangreinds er hann grunaður um brot í tengslum við efni sem sýnir börn á kynferðislegan hátt.

„Hann neitar sök í málinu og leggst gegn gæsluvarðhaldsúrskurðinum,“ segir Magnus Johansson, skipaður verjandi mannsins, um afstöðu skjólstæðings síns.

Kurt saksóknari hefur nú einn mánuð til stefnu til að gefa út ákæru á hendur manninum en kveðst ekki reikna með að henni nægi sá tími. „Sönnunargögnin eru mjög umfangsmikil get ég upplýst og grunur okkar er sterkur. Héraðsdómur féllst á mitt mat svo sönnunargögn málsins eru haldgóð,“ segir hún.

Forstöðukona dvalarheimilisins kom af fjöllum og heyrði að eigin sögn fyrst af málinu þegar fréttamaður SVT hafði samband við hana í dag. Baðst hún því undan að tjá sig nokkuð um málið uns hún hefði um það meiri vitneskju.

SVT

Göteborgs-Posten

Sveriges Radio

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert