Öldruð hjón bíða af sér eldgosið í bát

Hjón sem þurftu að yfirgefa heimili sitt á La Palma vegna eldgossins á eyjunni ákváðu að leita skjóls í litlum bát þangað til storminn lægir.

Þegar þeim var gert að yfirgefa heimilið höfðu þau Margaretha Straates, sem er áttræð, og eiginmaður hennar Luis Rodriguez Diaz, sem er níræður, lítinn áhuga á að búa í bráðbirgðahúsnæði.

„Skyndilega datt mér í hug, af hverju prófum við ekki bátinn? Þetta er bara gamall bátur en við gætum tekið nokkra hluti með okkur og komið okkur fyrir,“ sagði Rodriguez Diaz, sem starfaði sem skurðlæknir.

Eldfjallið Cumbre Vieja í gær.
Eldfjallið Cumbre Vieja í gær. AFP

Báturinn er 6,4 metra langur og nefnist Hamurabi. Síðustu 35 árin hefur aðeins einu sinni þurft að skipta um vél í honum, að sögn Diaz. Báturinn er engu að síður nógu stór fyrir hann og hollenska eiginkonu hans.

Saman eyða þau tímanum í bátnum með því að hlusta á útvarpið, auk þess sem tölvan hennar er með nettengingu. Einnig tóku þau kött í fóstur sem hafði verið á flótta eins og þau.   

Bátar í höfninni í bænum Tazacorte.
Bátar í höfninni í bænum Tazacorte. AFP

Þurftu að vera snör í snúningum

Hús þeirra er í þorpinu Todoque sem nánast þurrkaðist út af kortinu vegna hraunflæðis. Á sunnudaginn fréttu þau Straates og Diaz engu að síður að húsið þeirra væri enn uppistandandi.

Þegar þau fengu boð um að yfirgefa heimili sitt þurftu þau að vera snör í snúningum. „Lögreglan kom og sagði við okkur: „Þið þurfið að rýma húsið núna, mjög fljótt“. Þannig að við fórum af stað í fötunum sem við vorum klædd þá stundina,“ sagði Diaz.

Síðustu 16 daga hefur eldgosið eyðilagt meira en eitt þúsund eignir á Kanaríeyjum, þar af mörg heimili.

Hraun nálgast hús í Todoque í Los Llanos de Aridane …
Hraun nálgast hús í Todoque í Los Llanos de Aridane á Kanaríeyjum. AFP
Hraun hefur flætt úr eldfjallinu og valdið mikilli eyðileggingu.
Hraun hefur flætt úr eldfjallinu og valdið mikilli eyðileggingu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert