49 þúsund dauðsföll í ágúst vegna veirunnar

Alls hafa um 400 þúsund látist af völdum veirunnar í …
Alls hafa um 400 þúsund látist af völdum veirunnar í Rússlandi. AFP

Ríflega 49 þúsund dauðsföll urðu vegna Covid-19 í Rússlandi í ágúst, samkvæmt upplýsingum frá rússnesku hagstofunni, Rosstat. Sú tala er um það bil tvöfalt hærri en yfirvöld í Rússlandi hafa gefið upp, sem halda því fram að dauðsföllin hafi verið um 24 þúsund.

Misræmið má meðal annars útskýra með mismunandi skilgreiningum yfirvalda og hagstofunnar en í tölu þeirra fyrrnefndu er einungis tekið mið af dauðsföllum þar sem veiran er talin helsta dánarorsök við krufningu. Skilgreining Rosstat á Covid-tengdum dauðsföllum er þó mun víðtækari.

Sökuð um að draga úr alvarleika

Mikið mannfall varð í ágúst af sökum veirunnar í Rússlandi en fjölda daga í röð var nýtt met slegið hvað varðar Covid-tengd dauðsföll á dag. 

Hafa rússnesk yfirvöld verið sökuð um að draga úr alvarleika faraldursins. Alls hafa um 400 þúsund nú látist af völdum veirunnar í landinu sem telur rúmlega 146 milljónir íbúa.

Er Rússland nú í fjórða sæti á heimsvísu hvað varðar fjölda Covid-19-tilfella. Hefur þá Delta- afbrigðið leikið íbúa landsins grátt og þátttaka í bólusetningu verið dræm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert