Einn hættulegasti maður heims látinn

AQ Khan er þekktur sem „faðir pakistönsku kjarnorkusprengjunnar“.
AQ Khan er þekktur sem „faðir pakistönsku kjarnorkusprengjunnar“. AFP

„Faðir pakistönsku kjarnorkusprengjunnar“ Abdul Qadeer Khan lést í morgun 85 ára að aldri vegna Covid-19.

Khan er betur þekktur sem AQ Khan en hann er af mörgum talinn hafa verið einn hættulegasti maður heims samkvæmt vef BBC fyrir útbreiðslu kjarnorkutækni.

AQ Khan var hylltur sem þjóðarhetja í Pakistan en hann gerði ríkið að fyrsta íslamska ríkinu til þess að eignast kjarnorkuvopn. 

Litið er á AQ Khan sem þjóðarhetju í Pakistan.
Litið er á AQ Khan sem þjóðarhetju í Pakistan. AFP

Árið 2004 var AQ Khan fangelsaður þegar í ljós kom að hann seldi Norður-Kóreu, Íran og Líbíu kjarnorkutækni. Í sjónvarpsávarpi baðst AQ Khan afsökunar og harmaði svik sín. Pervez Musharraf náðaði AQ Khan en hann var í stofufangelsi til ársins 2009.

Leyniþjónustur vestrænna ríkja svo sem CIA og MI6 hafa haft það sem forgangsverkefni síðustu ár að ná tökum á víðfeðmu samskiptaneti AQ Khan.

Síðustu ár sín bjó AQ Khan við mikla öryggisgæslu en hann lést á sjúkrahúsi í Islamabad eftir að hafa veikst af Covid-19.

Forsætisráðherra Pakistan, Imran Khan, minntist AQ Khan á Twitter og sagðist harma dauða hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert