Gætu misst vernd gegn smiti „á næstu mánuðum“

Hjúkrunarfræðingur undirbýr skammt af bóluefni.
Hjúkrunarfræðingur undirbýr skammt af bóluefni. AFP

Sífellt fleiri rannsóknir benda til þess að ónæmi fólks gegn Covid-19 minnki einungis nokkrum mánuðum eftir að það hefur fengið tvo skammta af bóluefni Pfizer gegn Covid-19. Sérfræðingar biðja fólk þó um að örvænta ekki. CNN greinir frá þessu.

Fullbólusettir virðast enn vera vel varðir fyrir alvarlegum veikindum Covid-19 en vörn gegn einkennalausu eða einkennalitlu Covid-19 minnkar með tímanum.

Af þessum sökum hefur Pfizer beðið matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna um leyfi fyrir örvunarskömmtum fyrir fullbólusetta, sex mánuðum eftir bólusetningu.

„Við gerum ráð fyrir því að ónæmið minnki rólega með tímanum en fólk þarf ekki að örvænta,“ segir Ann Falsley, sérfræðingur í veirusjúkdómum í öndunarfærum við læknadeild Háskólans í Rochester í Bandaríkjunum, í samtali við CNN.

Pfizer hefur beðið um leyfi fyrir örvunarskömmtum.
Pfizer hefur beðið um leyfi fyrir örvunarskömmtum. AFP

Bóluefnin hafa reynst vel

„Það er ekki þannig að fólk verði einn daginn skyndilega fyllilega móttækilegt fyrir smiti, eins og það var fyrir bólusetningu,“ bætir Falsley við.

„Bóluefni Pfizer, Moderna og Johnsson & Johnsson hafa reynst býsna vel. Það er samt alveg möguleiki á að fólk muni þurfa örvunarskammta af bóluefninu til þess að koma í veg fyrir alvarleg veikindi. Í raun og veru leiða flest smit á meðal bólusettra af sér væg veikindi. Mín helstu skilaboð til fólks eru: ekki örvænta, það verður í lagi með ykkur.“

Bandaríkjamenn flykkjast í örvunarbólusetningu

Bandaríkjamenn hafa samt sem áður flykkst í örvunarbólusetningu. Í þessari viku fengu fleiri slíka bólusetningu í Bandaríkjunum en fyrstu bólusetningu. Á föstudag höfðu fleiri en sjö milljónir Bandaríkjamanna fengið annað hvort örvunarskammt eða þriðja skammt af bóluefni sem mælt er með fyrir fólk þar í landi sem er með veikt ónæmiskerfi.

Ekki þótt ástæða til að ráðleggja örvunarbólusetningu hér á landi

Hér á landi hefur ekki þótt ástæða til að ráðleggja fullbólusettu frísku fólki að sækja sér örvunarskammta af bóluefni, nema í tilviki bóluefnis Janssen.

„Enn virðast bólu­setn­ing­arn­ar virka mjög vel gegn al­var­leg­um veik­ind­um og sjúkra­hús­inn­lögn­um. Fjöldi á spít­ala hef­ur verið nokkuð stöðugur hér svo það hef­ur ekki þótt ástæða til að koma með þær ráðlegg­ing­ar,“ sagði Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá Embætti landlæknis í samtali við mbl.is í vikunni.

Gæti aukið möguleika á nýjum smitbylgjum

Tvær rannsóknir bættust í vikunni í hóp þeirra fjölmörgu sem þegar hafa verið gerðar á ónæmi eftir bólusetningu með bóluefni Pfizer gegn Covid-19. Niðurstöður þeirra staðfestu það sem margar aðrar rannsóknir hafa þegar leitt í ljós: að vörn bólusettra gegn Covid-19 smiti minnki með tímanum.

Önnur rannsóknin var framkvæmd í Ísrael og tóku 4.800 heilbrigðisstarfsmenn þátt í henni. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að ónæmið minnki hratt, „sérstaklega á meðal karlmanna, fólks sem er eldra en 65 ára og á meðal fólks sem er ónæmisbælt.“

Hin rannsóknin var framkvæmd í Katar og benda niðurstöður hennar til þess að vörn gegn smiti eftir bólusetningu með Pfizer sé mest á fyrsta mánuðinum eftir seinni sprautuna. Svo fer vörnin dalandi.

„Þessar niðurstöður benda til þess að stór hluti fullbólusettra gæti misst vernd sína gegn sýkingu á næstu mánuðum. Það gæti aukið möguleikann á nýjum bylgjum faraldursins,“ skrifaði rannsóknarteymið í grein sem birtist í læknisfræðitímaritinu New England Journal of Medicine.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert