Var með dekk um hálsinn í tvö ár

Elgurinn var með bíldekkið um hálsinn í tvö ár.
Elgurinn var með bíldekkið um hálsinn í tvö ár. Skjáskot/Youtube

Starfsmenn dýralífsstofnunar Colorado náðu loks að fjarlægja bíldekk sem sat fast um háls karlkyns hjartar. Hjörturinn hafði ráfað um hæðir Colorado í tvö ár með dekkið um hálsinn en fyrst sást til hans í júlí 2019. The Guardian greinir frá. 

Það sást til hjartarins, sem er fjögurra ára gamall og 270 kg, suðvestur af Denver á laugardagskvöldið. Tókst þá að deyfa hjörtinn en þetta var fjórða tilraunin til að reyna að ná dýrinu og hjálpa því.  

Skera þurfti af horn hjartarins

Skera þurfti horn hjartarins af til að fjarlægja dekkið því ekki tókst að skera í gegnum það.

„Við hefðum kosið að skera dekkið af og skilja eftir hornin þar sem það er mökunartímabil, en ástandið var brýnt og við urðum bara að fjarlægja dekkið á einhvern hátt,“ sagði Scott Murdoch hjá dýralífsstofnuninni. 

Murdoch sagðist hissa á því hvað háls hjartarins var í góðu ástandi eftir að dekkið var fjarlægt. Hann sagði að örlítið hár hefði nuddast af en dýrið hefði einungis verið með eitt sár á stærð við krónu. 

Að sögn dýralífsstarfsmanna hafa þeir séð dádýr, elgi, hirti, birni og fleiri dýr flækt í hina ýmsu hluti, líkt og rólur, hengirúm, þvottalínur, ljósaseríur, húsgögn, þvottakörfur, fótboltamörk og blaknet. 

mbl.is