Árás í Noregi – nokkrir látnir og fleiri særðir

Frá vettvangi í Kongsberg.
Frá vettvangi í Kongsberg. AFP

Vopnaður maður hefur drepið nokkra og sært marga í norska bænum Kongsberg í kvöld. Þetta kom fram á blaðamannafundi norskra yfirvalda án þess að nánari tölur væru gefnar upp. 

Maðurinn, sem sjónarvottar segja að hafi verið vopnaðu boga og örvum, hefur verið handtekinn. Ekki er talin þörf á að leita annarra vegna árásarinnar og af því má leiða að lögregla telji manninn hafa verið einan að verki. 

Í fréttum á vef norska ríkisútvarpsins segir að lögregla segi rannsókn málsins umfangsmikla.

Lögregluþyrlur voru sendar af stað og jafnvel sprengjusveit norsku lögreglunnar, að því er kom fram á áðurnefndum blaðamannafundi. Lögregla um allt land er nú á viðbúnaðarstigi. 

Lögreglan boðar annan blaðamannafund klukkan 20 að íslenskum tíma. 

Utanríkisráðuneytið hvetur Íslendinga, sem staddir eru í Kongsberg og á nærliggjandi svæðum, til þess að láta sína nánustu vita að þeir séu óhultir, að því er Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir við mbl.is. Ef einhverjir Íslendingar eru í vanda staddir, segir Sveinn að réttast sé að hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins. 

Kongsberg er rétt utan við bæinn Drammen og skammt frá …
Kongsberg er rétt utan við bæinn Drammen og skammt frá höfuðborg landsins, Osló. Kort/Google

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is