Barnshafandi konur fjárkúgaðar í fæðingu

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. STEPHANE DE SAKUTIN

Réttindasamtök í Mósambík hafa sakað opinber sjúkrahús um að fjárkúga og þvinga barnshafandi konur til þess að greiða fyrir fæðingarþjónustu, þjónusta sem á að vera þeim að kostnaðarlausu.

Hópur 40 borgaralegra samtaka, sem sameinuðust kvennahreyfingunni Women's Observatory, hefur borist 16 tilkynningar um ofbeldi og fjárkúgun, frá þremur mismunandi sjúkrahúsum í og við höfuðborgina Maputo, síðan í byrjun árs 2021.

Þær konur sem höfðu ekki efni á að greiða gjöldin sem þeim var gert að greiða voru ýmist vanræktar eða beittar misrétti.

Fyrir umönnun í fæðingu var konunum gert að greiða allt að 50 bandaríkjadali, jafnvirði rúmlega 6.000 íslenskra króna - fjárhæð sem er gríðarlega há fyrir marga íbúa þessarar fátæku suðurafrísku þjóðar.

Missti barn sitt í fæðingu vegna sinnuleysis

Þær konur sem ekki gátu greitt gjaldið voru beittar ofbeldi fyrir fæðingu, á meðan henni stóð og eftir hana. Sumar misstu jafnvel börnin sín í kjölfarið.

Ein kona, sem var án eftirlits í fæðingu segir nýfætt barnið hennar hafa fallið til jarðar í fæðingunni og dáið.

Sjálf hafi hún hlotið miklar blæðingar í fæðingunni en ekki fengið viðunandi meðhöndlun fyrr en tveimur dögum eftir fæðinguna. Þá hafi hjúkrunarfræðingar skipað henni að þrífa herbergið sitt sjálf eftir fæðinguna.

Borgaralegu samtökin hafa lagt þær upplýsingar sem þau hafa í höndunum um málið fyrir heilbrigðisráðuneytið í landinu.

„Við krefjumst þess að yfirvöld rannsaki þetta mál tafarlaust svo að hægt sé að koma þessu í kæruferli,“ segir meðlimur samtakanna í samtali við fréttastofu AFP.

„Við vitum til þess að fleiri konur, víða annarsstaðar í landinu séu að ganga í gegnum það sama, þó þær hafa ekki tilkynnt það.“

Heilbrigðisráðuneytið og eitt sjúkrahúsanna sem umræðir var innt viðbragða en án árangurs, að því er fréttastofa AFP greinir frá. 

mbl.is