„Leggðu frá þér vopnið“

Lögregluþjónar við störf í Kongsberg.
Lögregluþjónar við störf í Kongsberg. AFP

Sarkis Younan er 24 ára gamall nemi, sem búsettur er í Kongsberg í Noregi, þar sem fimm voru myrtir í árásum fyrr í kvöld. Sarkis býr aðeins um 20 metrum frá Coop-versluninni, þar sem ódæðin hófust.

Sarkis segir við norska blaðið Verdens gang, að hann hafi verið heima hjá sé að horfa á sjónvarpið þegar hann heyrði sírenur. Fyrst hélt hann að sírenurnar heyrðust í sjónvarpsþættinum, sem hann sat og horfði á, en hann vissi að eitthvað væri á seyði þegar hann heyrði öskur lögreglumanna.

„Leggðu frá þér vopnið,“ hefur Sarkis eftir lögreglumönnunum, sem voru samkvæmt þessu að handtaka árásarmanninn, sem vopnaður var boga og örvum. 

Ungmenni venja komur sínar í verslunina

Sarkis segir að lögreglumennirnir hafi verið gráir fyrir járnum, vopnaðír skotvopnum og skjöldum. Þeir umkringu verslunina og héldu inn. Því næst bankaði lögregla á rúður íbúa í kring og skipuðu fólki að halda sig innandyra.

Sarkis segist hafa verið í versluninni um klukkustund áður en árásarmaðurinn lét til skarar skríða. Hann segir að margir nemar á hans aldri venji komur sínar þangað.

„Allir sem fara oft í Coop þekkja hvern annan og starfsmennina þar. Ég vona að enginn þeirra sé alvarlega slasaður,“ segir Sarkis.

Verdens gang ræddi einnig við Magnus Tangen, sem var á leið í verslun nærri Coop-versluninni þar sem ódæðið hófst, og segist þá hafa heyrt í þyrlu. Þegar hann kom að versluninni var allt krökkt af lögregluþjónum, sjúkrabílum og blikkandi ljósum lögreglubíla.

„Það var svo mikið af blikkljósum að það var erfitt að sjá hversu margir lögreglubílar voru á staðnum,“ segir Magnus. Hann býr í grennd við Hyttegata, þar sem lögregla er nú við vettvangsstörf.

mbl.is