Minnka leyfilegt saltmagn í vörum

Stofnunin metur það svo að með því að miða tímamarkið …
Stofnunin metur það svo að með því að miða tímamarkið við 2024 ættu framleiðendur að hafa nægan tíma til að breyta uppskriftum sínum og aðlaga þær að breyttum reglum. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum kynntu í dag nýtt viðmið í tengslum við leyfilegt magn af natrín (e. sodium) í matvælum. 

Ríflega helmingur bandarísku þjóðarinnar er með of háan blóðþrýsting sem má rekja til óhóflegrar neyslu á salti, eða natrín.

Með þessu nýja viðmiði er markmiðið að draga úr neyslu á natrín um tólf prósent fyrir árið 2024, frá 3.400 milligrömmum niður í 3.000 milligrömm daglega, á hvern einstakling.

Salt neysla minnki um 60 teskeiðar á ári

Susan Mayne sinnir matvælaeftirliti fyrir Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna. Hún segir að breytingin komi til með að minnka salt neyslu einstaklinga um sextíu teskeiðar á ári.

Meðal Bandaríkjamaður innbyrðir helmingi meira magn af salti en ráðlagt er.  Níutíu og fimm prósent bandarískra barna á aldrinum tveggja til þrettán ára innbyrða óhóflegt magn af salti daglega.

Ofneysla salts, og þar með natríns, getur valdið háum blóðþrýstingi, hjarta- og æðasjúkdómum, offitu og sykursýki.

Eitt skref í einu

Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnunin mun fylgjast grannt með innleiðingu þessara nýju viðmiða en markmiðið til lengri tíma er að minnka natrín neyslu einstaklinga, eldri en fjórtán ára, niður í 2,300 milligrömm á dag.

Stofnunin metur það svo að með því að miða tímamarkið við 2024 ættu framleiðendur að hafa nægan tíma til að breyta uppskriftum sínum og aðlaga þær að breyttum reglum. Það muni einnig koma til með að gefa matarvenjum og smekk neytenda tíma til að þróast.

mbl.is