46 látnir í Taívan

Eldur kviknaði í byggingu í borginni Kaohsiung í Taívan í …
Eldur kviknaði í byggingu í borginni Kaohsiung í Taívan í gærnótt. AFP

Í gærnótt kviknaði í byggingu í borginni Kaohsiung í suðurhluta Taívan. Alls létust 46 manns og tugir særðust. Er þetta mannskæðasti eldurinn á eyjunni í áratugi.

Eldurinn kom upp í 13 hæða byggingu. Talið er að flest banaslys hafi orðið á sjöundu til elleftu hæð en þar voru íbúðir. Á fyrstu fimm hæðum hússins var atvinnuhúsnæði. Talið er að um 100 manns hafi búið í húsinu. 

Reykur barst frá hinni logandi byggingu.
Reykur barst frá hinni logandi byggingu. AFP

Íkveikja ekki útilokuð

Slökkvilið Kaohsiung segir að það hafi sent rúmlega 70 bíla til að takast á við eldinn en það tók fjóra klukkutíma að slökkva hann. Ekki er útilokað að um íkveikju hafi verið að ræða.

Eldurinn virðist vera sá mannskæðasti í Taívan í mörg ár. Síðasti eldur af svipaðri stærð var árið 1995 en þá létust 64 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert