Eftirlifendur hryðjuverkaárásar í ríkisstjórn

Jonas Gahr Store tók við embætti forsætisráðherra Noregs í morgun.
Jonas Gahr Store tók við embætti forsætisráðherra Noregs í morgun. AFP

Í nýrri ríkisstjórn forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Store, eru konur í meirihluta. Það að auki eru í stjórninni tveir eftirlifendur úr hryðjuverkárásinni í Útey árið 2011.

Ríkisstjórnin, sem er í minnihluta á þingi, var kynnt degi eftir að maður með boga og örvar að vopni drap fimm manns í bænum Kongsberg og særði tvo til viðbótar.

Tíu af nítján embættum ráðherra eru í höndum kvenna. Þar á meðal er Anniken Huitfeldt úr Verkamannaflokknum nýr utanríkisráðherra.

Þetta er í þriðja sinn sem konur eru í meirihluta í norsku ríkisstjórninni.

Tonje Brenna, 33 ára, er nýr menntamálaráðherra Noregs og Jan Christian Vestre, 35 ára, er viðskipta- og iðnaðarráðherra. Bæði lifðu þau af árásina í Útey.

„Á sama tíma og þessir hæfileikaríku ungu stjórnmálamenn burðast með fortíðina í eftirdragi finnst mér við hafa tekið mikilvægt skref og ég er mjög stoltur af því,“ sagði Store.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert