Forsetinn meðal smitaðra á metdegi í Lettlandi

Egils Levits forseti Lettlands.
Egils Levits forseti Lettlands. AFP

Egils Levits forseti Lettlands greindist með kórónaveiruna í dag eftir heimsókn til Danmerkur og Svíþjóðar. Levits er fullbólusettur og greindist við landamæraeftirlit. 

Forsetinn þarf því að vinna að heiman og aflýsa fjölda heimsókna en hann er með væg einkenni að sögn skrifstofustjóra forsetaskrifstofu Lettlands. Sauli Niinisto forseti Finnlands þarf einnig að sæta einangrun í ljósi fréttanna en forsetarnir snæddu hádegisverð saman á miðvikudag. 

Metfjöldi smita greindist í Lettlandi í dag þegar 2.408 sýni reyndust jákvæð. Þriggja mánaða neyðarástandi var lýst yfir í landinu á mánudaginn en einungis 48% af þeim tæpu tveimur milljónum sem búa í Lettlandi eru fullbólusett. 

Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar í farsóttarfræðum slitu samstarfi við stjórnina eftir að ráðleggingar þeirra voru virtar að vettugi síðasta sumar. Þá vöruðu þeir við þessari fjórðu bylgju sem nú geisar landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert