Bandaríkin aflétta takmörkunum 8. nóvember

Ómönnuð innritunarborð Air France á JFK-flugvelli í New York.
Ómönnuð innritunarborð Air France á JFK-flugvelli í New York. AFP

Bandarísk stjórnvöld munu aflétta ferðatakmörkunum inn til landsins gagnvart bólusettum ferðamönnum frá og með 8. nóvember.

Kevin Munoz, aðstoðarupplýsingafulltrúi Hvíta hússins, greinir frá þessu í tísti og tekur fram að þessi nýja stefna muni bæði taka til flugferða og ferða á landi.

Valdið miklum skaða

Landamærum þessa víðfeðma ríkis var lokað í mars á síðasta ári gagnvart ferðamönnum víða að, þar á meðal Evrópusambandinu, Bretlandi, Kína, Indlandi og Brasilíu. Fólki frá Mexíkó og Kanada var einnig meinað að koma til landsins.

Lokanirnar hafa valdið miklum skaða fyrir efnahag landsins og fleiri landa, auk þess sem gífurlegum fjölda fólks var gert erfitt fyrir að heimsækja ástvini sína.

Samkvæmt nýju stefnunni munu bólusettir flugfarþegar þurfa að gangast undir skimun innan þriggja daga áður en haldið er af stað. Þá munu flugfélög einnig þurfa að koma á einhvers konar kerfi til að rekja smit.

mbl.is