Frakkar draga úr plastmengun

Frönsk yfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að draga úr …
Frönsk yfirvöld hafa lagt mikla áherslu á að draga úr notkun einnota plasts, meðal annars vegna áhrifa þess á sjávarríkið. Ljósmynd/Thinkstock

Vatn í einnota plastflöskum mun ekki lengur standa gestum franska ríkislestarfélagsins SNCF til boða en félagið hefur ákveðið að hætta sölu á því til að draga úr mengun. Í stað plastumbúða mun vatn og sódavatn verða selt í endurunnum pappaumbúðum eða ál dósum.

Þessi ákvörðun er algjörlega í takt við almennar breytingar í frönsku samfélagi en undanfarið hafa yfirvöld þar í landi lagt auknar takmarkanir á sölu einnota plastumbúða til að draga úr neikvæðum áhrifum plasts á umhverfið, þá sérstaklega með tilliti til sjávarmengunar.

Ýta undir umskipti í önnur efni

Á mánudaginn tilkynnti ríkisstjórnin að í byrjun næsta árs verði bann lagt á sölu ávaxta og grænmetis í plastumbúðum. Einungis viðkvæmasta uppskeran, á borð við jarðaber, fá undanþágu á þessum reglum til ársins 2026.

„Við notum fáránlega mikið magn af einnota plasti í okkar daglega lífi. [...] við erum að vinna að því að draga úr notkun þess og ýta undir umskipti yfir í önnur efni sem hægt er að endurnota eða endurvinna," segir í yfirlýsingu franska umhverfisráðuneytisins.

Á síðasta ári var lagafrumvarp samþykkt í Frakklandi sem átti að stuðla að aukinni hringrás í efnahagskerfinu. Var þar meðal annars kveðið á um að fyrirtæki mættu ekki lengur eyðileggja föt sem ekki hefði náðst að selja og að lagt yrði bann við notkun einnota plastumbúða fyrir 2040. 

Þá tilkynntu yfirvöld í París í þessari viku að stefna væri sett á að útrýma öllu plasti frá ríkisreknum dagvistunum, mötuneytum og dvalarheimilum fyrir árið 2026.

mbl.is