Yfirmaður hjá Nike greinir frá morði

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Framkvæmdastjóri hjá Nike hefur greint frá því að hafa myrt táningspilt í Philadelphia-borg í Pennsylvaníu-ríki árið 1965. 

Larry Miller, sem er 72 ára gamall og framkvæmdastjóri Jordan-vörulínunnar, greindi frá morðinu í viðtali við Sports Illustrated tímaritið á miðvikudag. Miller mun gefa út ævisögu sína á næsta ári þar sem farið er yfir morðið og afleiðingar þess. 

Miller gekk til liðs við glæpagengið Cedar Avenue í Philadelphia 13 ára gamall. Þremur árum síðar var vinur hans myrtur af öðru gengi og í hefndarskyni greip Miller skotvopn og fór út á götur borgarinnar í leit að liðsmanni óvinagengisins. 

30. september 1965 skaut Miller fyrstu manneskjuna sem hann gekk fram á þetta kvöld, hinn 18 ára Edward White. „Það er það sem gerir þetta enn þá erfiðara fyrir mig, því þetta var án nokkurrar ástæðu,“ segir Miller um morðið. Hann var síðar handtekinn og fangelsaður. 

Miller hefur starfað fyrir Nike frá árinu 1997 og stýrir rekstri körfuboltalínu Nike, Jordan-vörulínunnar og Converse. 

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert