Bólusetja skunka, pardusa og otra gegn veirunni

Það er ekki bara við mannfólkið sem verjum okkur gegn kórónuveirunni með bóluefnum heldur hafa íbúar dýragarðsins ZooTampa í Flórída nú einnig fengið bólusetningu. 

Bóluefnin eru sérframleidd fyrir dýr og hafa dýragarðsverðir, með hjálp vísindamanna, valið þær tegundir sem í mestri hættu eru á því að smitast af veirunni. 

Lyfjaframleiðandinn Zoetis, sem sérhæfir sig í lyfjameðferðum dýra, framleiðir bóluefni sem sérstaklega er framleitt til þess að vernda dýr gegn smiti. 

Lyfið er nú notað í dýragörðum um gervöll Bandaríkin og segja forsvarsmenn ZooTampa að þeir hafi fengið 220 skammta, sem dugar til þess að bólusetja um 19 dýrategundir; Flórída-pardusa, skunka, otra og nokkrar tegundir prímata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert