Ferðamálaráð Vínar opnar OnlyFans-aðgang

Ferðamálaráð Vínarborgar hefur opnað OnlyFans-aðgang til að mótmæla ritskoðun samfélagsmiðla …
Ferðamálaráð Vínarborgar hefur opnað OnlyFans-aðgang til að mótmæla ritskoðun samfélagsmiðla á listaverkum sem sýna nekt. Ljósmynd/Pixabay

Ferðamálaráð Vínarborgar hefur opnað OnlyFans-aðgang til að mótmæla ritskoðun samfélagsmiðla á listaverkum sem sýna nekt. 

Á vef The Guardian segir að aðgangurinn hafi verið opnaður í kjölfar þess að TikTok-aðgangi Albertina safnsins var lokað eftir að safnið birti færslur af sýningu á ljósmyndum Japanans Nobuyoshi Araki en myndirnar sýna brjóst kvenna. Safnið þurfti því að búa til annan TikTok-aðgang.

Svipað atvik átti sér stað árið 2019 þegar Instagram úrskurðaði að málverk eftir Peter Paul Rubens bryti í bága við reglur miðilsins um nekt, jafnvel þó um væri að ræða „listræna eða skapandi nekt“.

Árið 2018 fjarlægði Facebook mynd breska náttúrusögusafnsins af Venus frá Willendorf á þeim grundvelli að hún væri of klámfengin. Styttan er 25 þúsund ára gömul.

Áskrifendur fá annaðhvort borgarkort eða aðgangsmiða

Helena Hartlauer, talsmaður ferðamálaráðs Vínarborgar, segir það hafa reynst borginni og menningarstofnunum hennar „nánast ómögulegt“ að hafa nekt í kynningarefni sínu. Meðal annars eru verk listamannsins Amedeo Modigliani, sem eru nú til sýnis á Albertina safninu, talin of óviðeigandi til þess að kynna þau á samfélagsmiðlum.

Ferðamálaráðið hafi því fundist það knúið til þess að stofna aðgang á OnlyFans þar sem miðillinn leyfir nekt. Fyrstu áskrifendur að „18+ efni Vínar“ á miðlinum fá annaðhvort borgarkort í Vín eða aðgangsmiða á listasýningu. 

mbl.is