Fórnarlömbin myrt með eggvopni, ekki örvum

Lögreglumenn að störfum í Kongsberg.
Lögreglumenn að störfum í Kongsberg. AFP

Lögreglan í Noregi segir að fórnarlömbin fimm sem létust í árásinni í Kongsberg í Noregi í síðustu viku hafi verið myrt með eggvopni, en ekki boga og örvum eins og upphaflega var talið.

Lögreglan sagðist ekki getað gefið upplýsingar um hvers kyns eggvopn væri um að ræða þar sem ekki væri enn búið að yfirheyra öll vitnin.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni sagði að fórnarlömbin hefðu verið valin af handahófi og að árásarmaðurinn hefði skotið að fólki með örvum í byrjun árásinnar en að enginn hefði beðið bana af.

Þá mun árásarmaðurinn hafa losað sig við bogann á einhverjum tímapunkti eða týnt honum að sögn lögreglunnar.

mbl.is