Minnast Amess á breska þinginu

Kona kveikir á kerti til minningar um Amess.
Kona kveikir á kerti til minningar um Amess. AFP

Breskir þingmenn munu í dag minnast þingmannsins Davids Amess, sem var stunginn til bana á föstudaginn.

Mínútuþögn verður haldin á breska þinginu til að minnast hans en þingið kemur saman í dag eftir þriggja vikna hlé.

„Það sem einkenndi hann var að jafnvel þótt hann væri ósammála fólki var hann mjög örlát manneskja,” sagði Dominic Raab, varaforsætisráðherra Bretlands, við BBC.

Amness, sem var 69 ára, var stunginn til bana þegar hann ræddi við kjósendur á kjördæmafundi í austurhluta Lundúna.

25 ára maður hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudags vegna árásarinnar. Hann hefur ekki verið ákærður.

mbl.is