20 í fangelsi vegna hruns sóttkvíarhótels

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. AFP

Kínverjar hafa dæmt 20 manns í fangelsi fyrir spillingu vegna aðildar þeirra að hruni sóttkvíarhótels á síðasta ári.

29 manns létust og 50 slösuðust þegar Xinjia-hótelið í borginni Quanzhou í suðurhluta Kína hrundi.

Á þeim tíma var 66 herbergja hótelið notað til að hýsa tugi manna sem þurftu að fara í sóttkví eftir að hafa ferðast nýlega til svæða þar sem kórónuveiran hafði verið skæð.

Síðar kom í ljós eftir rannsókn að þremur hæðum hafði á ólöglegan hátt verið bætt við bygginguna, sem var upphaflega fjögurra hæða.

Eftirlitsaðilar höfðu í samstarfi við eigendur hótelsins falsað skýrslur um bygginguna.

Eigandi hótelsins hefur verið dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir að valda alvarlegu slysi, skjalafals og mútugreiðslur. Tólf til viðbótar fengu eins og hálfs árs til þrettán ára fangelsisdóma.

Þar að auki voru sjö opinberir starfsmenn dæmdir í tveggja til sex ára fangelsi fyrir mútuþægni og fleiri glæpi.

mbl.is