Fjögurra ára stúlka hvarf af tjaldsvæði

Umfangsmikil leit stendur yfir að Cleo Smith.
Umfangsmikil leit stendur yfir að Cleo Smith. Ljósmynd/Lögreglan í V-Ástralíu

Ástralska lögreglan segist hafa „alvarlegar áhyggjur“ af fjögurra ára stúlku sem týndist á afskekktu tjaldsvæði fyrir fjórum dögum.

Cleo Smith sást síðast sofandi í tjaldi fjölskyldu sinnar á tjaldsvæðinu Quobba Blowholes í vesturhluta Ástralíu á föstudagskvöld.

Þegar móðir hennar vaknaði morguninn eftir var hún horfin, að sögn lögreglunnar. Svefnpokinn hennar var einnig horfinn.

Mikil leit hefur verið gerð að stúlkunni bæði á láði og legi.

Lögreglan sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem hún bað aðra gesti á tjaldsvæðinu sem gætu veitt upplýsingar um hvarf hennar að stíga fram, að sögn BBC.

Lögreglan í vesturhluta Ástralíu deildi jafnframt myndum af stúlkunni, ásamt myndum af náttfötum hennar og svefnpoka.

mbl.is