Ítalskri þingkonu bannað að mæta á þingfund

Úr þingsal ítalska þingsins.
Úr þingsal ítalska þingsins. Gregorio Borgia / POOL / AFP

Ítölsku þingkonunni Laura Granato var í dag meinaður aðgangur að þingfundi í Róm þar sem hún gat ekki reitt fram „grænan passa“ við komuna. Græni passinn er vottorð þess efnis að maður sé annað hvort bólusettur, meða nýlegt neikvætt próf eða vottorð um eldri sýkingu.

Samkvæmt nýjum lögum hefur öllum ítölskum vinnustöðum verið skylt að krefja alla starfsmenn um græna passann við komu til vinnu. Lögin tóku gildi á föstudag og gilda bæði um einkageirann og hið opinbera.

Mótfallin hugmyndinni

Granato átti að mæta á þingfund um téðan passa en var meinaður aðgangur að fundinum þar sem hún gat ekki reitt fram sinn passa. Hún er sjálf mótfallin hugmyndinni að skilríkinu sem hún kallar „viðurkenningu fyrir hlýðni“.

86% Ítala sem eru eldri en tólf ára hafa þegar fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni við Covid-19. Þrátt fyrir það eru enn þá um 3 milljónir manna óbólusett á vinnumarkaðnum en þeir þurfa þá að fara í próf á nokkurra daga fresti til þess að mega mæta til vinnu.

mbl.is