Mun reyna að bjarga hundunum frá eldgosinu

Frá eldgosinu á La Palma í dag.
Frá eldgosinu á La Palma í dag. AFP

Spænskur drónaflugmaður hefur boðið fram aðstoð sína við að bjarga þremur hjálparvana hundum á eyjunni La Palma sem eru nú fastir í sjálfheldu vegna eldgossins sem hefur staðið yfir frá því í síðasta mánuði.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Þrír hundar urðu innlyksa í yfirgefnum garði og hafa þeir verið fastir þar í vikur. Þeim hefur verið færður matur með aðstoð dróna en hingað til hafa íbúar setið ráðalausir um hvernig skuli koma dýrunum í öruggar hendur.

Ætla að veiða hundana í net

Hafa yfirvöld nú tekið ákvörðun um að veita spænska drónaflugmanninum Jaime Pereira leyfi til að láta á það reyna hvort hann nái að veiða hundana upp með neti og fljúga þeim í öruggt skjól með öflugum 50 kílóa drónabúnaði.

„Ef þetta er síðasta úrræði hundanna, þá munum við láta reyna á það,“ sagði Pereira í samtali við blaðamann Reuters.

Sá sem stýrir drónanum mun einungis hafa fjögurra mínútu tímaramma til að lokka hundinn að netinu, og aðrar fjórar mínútur til að fljúga með hann á brott. Er þá helsta hættan að dróninn verði batteríslaus á miðri leið.

Að sögn Pereira eru æfingar í stífum gangi en á endanum veltur árangur aðgerðarinnar fyrst og fremst á því hvernig hundarnir munu bregðast við tækjunum.

mbl.is