Segja berkla dreifast með andardrætti

Barn frá Madagaskar fær bólusetningu við berklum frá hjúkrunarfræðingi á …
Barn frá Madagaskar fær bólusetningu við berklum frá hjúkrunarfræðingi á vegum Lækna án landamæra. AFP

Andardráttur einn og sér dugar til að dreifa bakteríunni sem veldur berklum. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem voru kynntar á stórri ráðstefnu í morgun.

Þetta gæti orðið til þess að heilbrigðisyfirvöld endurmeti aðgerðafræðina sem hingað til hefur verið stuðst við þar sem hóstinn er aðalviðfangsefnið.

Með notkun nýjustu tækni mældi hópur rannsakenda við háskólann í Höfðaborg í Suður-Afríku bakteríuna sem veldur berklum hjá 39 berklasjúklingum.

Skoðaður var öndunarúði fólksins við venjulega öndun, djúpa öndun og hósta. Hópurinn komst að því að eftir fimm mínútur hafði allt þrennt ofantalið búið til agnir sem innihéldu þessa hættulegu bakteríu.

Hóstinn framleiddi þrisvar sinnum meira af bakteríum en andardrátturinn. Þrátt fyrir það sýndi rannsóknin að vegna þess að fólk andar allan liðlangan daginn þá getur það að anda frá sér verið orsakavaldur yfir 90% berkla í andrúmsloftinu.

Berklar eru sögulega séð mannskæðasti smitsjúkdómur veraldar. Hann veldur yfir 1,5 milljónum dauðsfalla á hverju ári að meðaltali. Undanfarið hefur aðeins Covid-19 farið fram úr sjúkdómnum.

Krónískur hósti er einkenni berkla og hingað til hafa heilbrigðisyfirvöld einbeitt sér að fólki sem sýnir slík einkenni. Eins og með Covid getur fólk samt borið með sér berkla án þess að sýna einkenni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert