Skjálftar leysa úr læðingi flök frá heimsstyrjöld

Bandarískir hermenn reisa þjóðfánann sinn á hæð eftir orrustuna um …
Bandarískir hermenn reisa þjóðfánann sinn á hæð eftir orrustuna um Iwo Jima árið 1945. Joe Rosenthal

Flök japanskra flutningaskipa sem Bandaríkjaher klófesti á lokametrum seinni heimsstyrjaldar fljóta nú upp og rekur á strendur japönsku eyjunnar Iwo Jima í Kyrrahafinu. Bandaríski flotinn notaði skipin sem hafnarlíki á eyjunni í stríðinu en leyfði þeim síðan að sökkva í sæ þegar því lauk.

Föst á ólífvænni eyju

Eldfjallið Suribachi er á suðvesturhorni Iwo Jimo en það er eitt virkasta eldfjall Japans. Síðustu ár hafa jarðhræringar á svæðinu hækkað sjávarbotninn þar í kring með þeim afleiðingum að skipin sem eitt sinn lágu á botni sjávar eru nú undir berum himni á öskuströnd, að því er segir í umfjöllun Telegraph.

Þar sem engin föst búseta er á eyjunni og sökum eldvirkni fjölda sprengiefna úr heimsstyrjöldinni er talið ólíklegt að flökin verði fjarlægð í bráð.

Baráttan um Iwo Jima var ein sú blóðugasta í seinni heimstyrjöldinni en er líklega þekktust í dag vegna frægrar ljósmyndar þar sem bandarískir hermenn reisa fána ríkis síns eftir að hafa sigrað her Japana. 

Miklar jarðhræringar í Japan

Yfirvöld í Japan flokka Suribachi-fjallið sem eitt af þeim tíu hættulegustu í Japan, sem státar annars af 110 virkum eldfjöllum. Setsuya Nakada, yfirmaður eldfjallastofnunar japönsku ríkisstjórnarinnar, segir möguleika á miklum eldsumbrotum í fjallinu. 

Allur eyjaklasi Japans hefur í raun skolfið síðustu vikur. Nú síðast þann 8. október reið jarðskjálfti að stærðinni 5,9 yfir í Tókýó, höfuðborg Japans. Það er stærsti skjálfti síðan í mars 2011 þegar skjálfti að stærðinni 9 hratt af stað stórri flóðbylgju með skelfilegum afleiðingum á norðausturhluta eyjunnar.

mbl.is