Trump ófrægir Powell degi eftir andlát hans

Donald Trump var 45. forseti Bandaríkjanna, utanríkisráðherrar hans voru þeir …
Donald Trump var 45. forseti Bandaríkjanna, utanríkisráðherrar hans voru þeir Rext Tillerson og Mike Pompeo. AFP

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandríkjanna sagði í dag að Colin Powell, utanríkisráðherra George Bush sem lést í gær, hefði verið repúblikani að nafninu til eingöngu og minnti á stuðning hans við Íraksstríðið.

Powell var minnst sem brautryðjanda í bandarískum stjórnmálum en hann var fyrsti svarti utanríkisráðherra landsins. Í forsetatíð Trump gagnrýndi Powell hann harðlega og kallaði eftir afsögn Trumps í kjölfar innrásarinnar á þinghúsið þann 6. janúar. 

Repúblikani að nafninu til einvörðungu

„Dásamlegt að sjá meðferðina sem Colin Powell, sem gerði stór mistök í aðdraganda innrásarinnar í Írak varðandi meint gjöreyðingarvopn, fær hjá falsfréttamiðlunum. Ég vona að það sama verði gert fyrir mig einhvern daginn,“ segir í yfirlýsingu frá Trump. 

Powell lést í gær eftir baráttu við krabbamein og síðar eftirköst Covid-19. Margir álitu hann stríðshetju, alþjóðlegan erindreka og brautryðjanda fyrir blökkumenn í Bandaríkjunum.

Trump kallar Powell hins vegar dæmigerðan RANT, Repúblikana aðeins að nafninu til, sem hefði gert fjölda mistaka: „Alltént, megi hann hvíla í friði!“

Í frebrúar 2003 hélt Powell erindi sem þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þar sem hann hélt því fram að Írak hefðu gjöreyðingarvopn undir höndum. Sú fullyrðing reyndist á sandi reist og það flekkti orðspor hans sem embættismaður. 

Colin Powell á fundi með öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Colin Powell á fundi með öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. AFP
mbl.is