Byrlað á næturklúbbum með nálarstungum

Lögreglan í Nottingham hefur fengið á borð til sín mál …
Lögreglan í Nottingham hefur fengið á borð til sín mál þar sem fólki er byrlað „líkamlega“ á næturklúbbum. AFP

Yfir hundrað þúsund manns hafa sett nafn sitt á undirskriftalista í Bretlandi þar sem kallað er eftir því að leit fari fram á gestum næturklúbba áður en þeim verði hleypt inn. Tilefni listans má rekja til fjölgunar mála þar sem fólki er byrlað með nálum á næturklúbbum.

Frá þessu er greint á vef BBC.

130 þúsund manns hafa skrifað undir listann þar sem farið er fram á að ríkisstjórnin festi í lög að leitað verði á fólki áður en það fái að fara inn á klúbbana. Hannah Thomson, forsprakki listans, er yfir sig ánægð með viðtökurnar en þær hafa farið fram úr hennar björtustu vonum. Hún kveðst hafa komið þessu verkefni á fót í kjölfar þess að hún varð vör við færslur á samfélagsmiðlum þar sem sögur fóru af þessum byrlunum.

Var upprunalega hugmyndin sú að þreifað yrði létt á gestum utanklæða eða þá að málmleitartæki yrði notað. Ekki væri þá um að ræða sama viðbúnað og er á flugvöllum. „Ég kýs miklu frekar að láta leita á mér heldur en að vera stungin með nál í bakið,“ er haft eftir henni.

Fann stungusár á hendinni

Sarah Buckle, 19 ára nemandi í Háskólanum í Nottingham, er ein þeirra kvenna sem hefur lent í þeirri óþægilegu lífsreynslu að verða stungin með nál og byrlað.

Sarah var úti að skemmta sér í Nottingham í september þegar hún fann skyndilega fyrir vanlíðan. „Á einni stundu var ég að tala og áður en ég vissi af gat ég ekki komið frá mér orði. Þau fóru með mig og létu mig setjast niður en síðan gat ég ekki staðið aftur á fætur.“

Daginn eftir rankaði hún við sér í sjúkrahúsrúmi. Tók hún þá eftir litlu stungusári á hendinni á sér. Að sögn Söruh jafnast þessi tilfinning ekkert á við það að hafa drukkið of mikið og líður henni eins og að brotið hafi verið á sér.

„Þú getur passað upp á drykkinn þinn en hvernig áttu að koma í veg fyrir að einhver stingi þig,“ er haft eftir Söruh.

Skoða mál þar sem fólki er byrlað „líkamlega“

Hópar frá meira en 30 háskólum víðs vegar um Bretland hafa kallað eftir sniðgöngu næturklúbba út af þessum málum.

Talsmaður Háskólans í Nottingham sagði skólann vera að vinna náið með lögreglunni til að stuðla að bættara öryggi á næturlífinu.

Þá hefur lögreglan í Nottingham staðfest að á borði hennar séu mál þar sem fólki hefur verið byrlað „líkamlega“.

mbl.is