Fyrrverandi þýskir hermenn hugðust stofna hryðjuverkahóp

Borgarastyrjöldin í Jemen hefur staðið frá árinu 2014.
Borgarastyrjöldin í Jemen hefur staðið frá árinu 2014. AFP

Lögreglan í Þýskalandi hefur handtekið tvo fyrrverandi þýska hermenn sem eru sakaðir um að reyna að setja á laggirnar sveit vopnaðra manna til að berjast í borgarstyrjöldinni í Jemen. Mennirnir eru sakaðir um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk. 

Saksóknaraembættið í Karlsruhe í Þýskalandi segir að mennirnir hafi verið byrjaðir að taka skref í átt að því að setja saman um 100-150 manna hóp til að taka þátt í átökunum. Um sé að ræða fyrrverandi lögreglumenn og hermenn. 

Mennirnir, sem eru aðeins nefndir á nafn sem Arend-Adolf G. og Achim A., eru báðir þýskir ríkisborgarar. Þeir eru sakaðir um að hafa byrjað að skipuleggja hryðjuverkasamtök í byrjun þessa árs.

Arend-Adolf G. er sagður hafa haft það hlutverk að fá menn til liðs við verkefnið. Hann var búinn að hafa samband við að minnsta kosti sjö einstaklinga í þeirri von að þeir myndu hafa áhrif á gang borgarastyrjaldarinnar í Jemen, að því er ákæruvaldið segir. 

Það segir ennfremur að mennirnir hafi gert sér fulla grein fyrir því að hópurinn myndi taka þátt í vopnuðum átökum með þeim afleiðingum að fólk myndi láta lífið. Þeir hafi búist við því að saklausir borgarar myndu látast eða særast af þeirra völdum. 

Talið er að yfir 100,000 manns hafi látist í stríðinu …
Talið er að yfir 100,000 manns hafi látist í stríðinu í Jemen, þar af 12.000 almennir borgarar. Þá eru um 85.000 látnir af völdum hungursneyðar. Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að um 13 milljónir landsmanna standi frammi fyrir slíkri neyð. Það gæti því orðið að einni verstu hungursneyð í heiminum í heila öld. AFP

Sakborningarnir bundu vonir við að fá fjármagn frá Sádi-Arabíu og til stóð að greiða liðsmönnum samtakanna um 40.000 evrur í laun á hverjum mánuði, sem samsvarar um sex milljónum kr. á mánuði. 

Achim A. er sakaður um að hafa sett sig í samband við fulltrúa stjórnvalda í Sádi-Arabíu og reynt að koma á fundi. Að sögn ákæruvaldsins svöruðu sádiarabísk stjórnvöld ekki skilaboðunum. 

Árum saman hafa vopnaðar sveitir, sem eru undir stjórn Sádi-Araba, barist gegn uppreisnarhópi Huthi-manna í Jemen, en þeir síðarnefndu hafa notið stuðnings Írana. 

Ákæruvaldið segir að sakborningarnir hafi með sínum fyrirætlunum viljað koma á friði milli stríðandi fylkinga í landinu, með því að þrýsta á samningaviðræður. 

Sérsveitarmenn handtóku tvímenningana í morgun í Munchen og í héraðinu Bresigau-Hochschwarzwald í suðvesturhluta landsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert