Stöðvuðu kosningafrumvarp demókrata

Schumer á gangi í þinghúsinu.
Schumer á gangi í þinghúsinu. AFP

Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings hindruðu í dag, í þriðja sinn á þessu ári, að til umræðu kæmi löggjöf sem að sögn demókrata er ætlað að tryggja betur kosningaréttindi Bandaríkjamanna.

Fimmtíu þingmenn demókrata og óháðra studdu það að frumvarpið færi til umræðu í þinginu, en fimmtíu þingmenn repúblikana kusu gegn því. Ríkir því enn þrátefli um löggjöfina, sem demókratar segja að sé nauðsynleg til að stemma stigu við nýrri löggjöf í mörgum ríkjum þar sem repúblikanar eru við völd, þar sem hert hefur verið á ýmsum reglum um það hvernig borgarar neyta kosningaréttar síns.

Geri Bandaríkjamönnum erfiðara fyrir

„Þau lög munu gera milljónum Bandaríkjamanna erfiðara fyrir að taka þátt í eigin stjórn,“ sagði Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, við blaðamenn eftir að úrslitin urðu ljós.

„Ef það er eitthvað sem er verðugt athygli öldungadeildarinnar, ef það er eitthvað mál sem ræða ætti í þessum sal, þá er það að vernda lýðræðið okkar frá öflum sem eru að reyna að uppræta það að innanverðu.“

Demókratar þurftu 60 atkvæði til að ná tilskildum meirihluta samkvæmt lögum þingsins, en fjallað er um málið á vef New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert