Gagnaleki sýnir ríki reyna að breyta skýrslu SÞ

Götulist skammt frá staðnum þar sem COP26 verður haldin í …
Götulist skammt frá staðnum þar sem COP26 verður haldin í Glasgow. AFP

Stór gagnaleki sýnir fram á tilburði nokkurra ríkja til þess að breyta mikilvægri vísindalegri skýrslu um það hvernig eigi að takast á við loftslagsbreytingar. Sádi-Arabía, Japan og Ástralía eru á meðal þeirra landa sem hafa beðið Sameinuðu þjóðirnar um að gera minna úr nauðsyn þess að horfið sé hratt frá notkun jarðefnaeldsneytis. 

Þá sýnir gagnalekinn að sumar ríkar þjóðir efist um að þær muni vilja borga meira til fátækari ríkja til þess að aðstoða þau við að færa sig yfir í grænni tækni. 

BBC greinir frá þessu, nú í aðdraganda COP26 loftslagsráðstefnunnar í nóvember. 

Lekinn sýnir að lönd hafa mótmælt tilmælum Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir í loftslagsmálum aðeins nokkrum dögum áður en þau verða á ráðstefnunni beðin um að ráðast í verulegar skuldbindingar til þess að halda hlýnun jarðar í 1,5 gráðum.

Loftslagsbreytingum mótmælt í Brussel.
Loftslagsbreytingum mótmælt í Brussel. AFP

Skýrsla sem hefur mikil áhrif á viðræðurnar

Skjölin sem birtast í lekanum samanstanda af meira en 32.000 innsendingum stjórnvalda, fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila til hóps vísindamanna sem komu að fyrrnefndri skýrslu um viðbrögð við loftslagsbreytingum. 

Skýrslan er sambærileg þeim sem gerðar eru á sex til sjö ára fresti af milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar, stofnun Sameinuðu þjóðanna sem hefur það hlutverk að meta vísindaleg gögn um loftslagbreytingar. 

Skýrslur sem þessar eru notaðar af stjórnvöldum við ákvarðanatöku um það hvaða aðgerðir séu nauðsynlegar til þess að takast á við loftslagsbreytingar. Skýrslan verður veigamikil í viðræðum um slíkt á COP26 loftslagsráðstefnunni. 

Flest ummæli stjórnvalda um efni skýrslunnar eru uppbyggileg og til þess gerð að auka gæði hennar. 

COP26 verður haldin í þessari byggingu í Glasgow í Skotlandi.
COP26 verður haldin í þessari byggingu í Glasgow í Skotlandi. AFP

Telja að skýrslan gangi of langt

Þrátt fyrir það halda fjöldi landa og stofnana því fram að skýrslan gangi of langt, samkvæmt gagnalekanum. Þar má helst nefna áherslu á að draga úr jarðefnaeldsneyti. 

Ráðgjafi olíumálaráðuneytis Sádi-Arabíu krefst þess t.a.m. að setningum eins og „þörf á mótvægisaðgerðum á öllum sviðum er aðkallandi“ verði eytt úr skýrslunni. Stjórnvöld í landinu biðja vísindamenn Sameinuðu þjóðanna einnig um að eyða niðurstöðu sinni um að áhersla á kolefnislosun í orkugeiranum eigi að vera á hraða tilfærslu úr jarðefnaeldsneyti yfir í uppsprettur sem skilja ekki eftir sig kolefnisspor. 

Þá mótmælir háttsettur embættismaður í Ástralíu þeirri niðurstöðu skýrslunnar að lokun kolaorkuvera sé nauðsynleg, jafnvel þó að það að binda endi á notkun kola sé eitt af yfirlýstum markmiðum COP26. 

Sádi-Arabía er einn stærsti olíuframleiðandi heims og Ástralía er stór kolaútflytjandi.

Liðskona umhverfisverndarhopsins Extinction Rebellion group mótmælir loftslagsbreytingum.
Liðskona umhverfisverndarhopsins Extinction Rebellion group mótmælir loftslagsbreytingum. AFP

Noregur á meðal þeirra sem vill sjá breytingar á skýrslunni

Háttsettur vísindamaður hjá indverskri stofnun um rannsóknir á námuvinnslu og olíuleit, sem á í sterkum tengslum við indversk stjórnvöld, varar við því að kol verði líklega áfram uppistaðan í orkuframleiðslu næstu áratugina vegna þess sem hann lýsir sem „gífurlegri áskorun“ við að útvega raforku á viðráðanlegu verði. Indland er nú þegar næststærsti neytandi kola í heiminum. 

Noregur og Argentína finna einnig eitt og annað að skýrslu vísindamannanna. Löndin telja að leyfa ætti CCS, tækni sem safn­ar út­blæstri sam­an svo hægt sé að grafa hann í jörðu, til þess að draga úr losun jarðefnaeldsneytis.

Ekki er minnst á neinn þrýsting frá íslenskum stjórnvöldum eða fyrirtækjum í frétt BBC um gagnalekann.

mbl.is