Skautaði fram hjá Taívan-ummælum Bidens

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon, muni halda áfram stuðningi við taívanska herinn, en hann svaraði því ekki hvort bandarískir hermenn myndu verja Taívan kæmi til átaka gegn Kína. En Joe Biden Bandaríkjaforseti lét þau ummæli falla að Bandaríkin væru reiðubúin að gera það. 

„Eins og við, og fyrri ríkisstjórnir, höfum margsinnis gert í gegnum tíðina, þá munum við halda áfram að veita Taívan þá aðstoð sem landið þarf til að verjanst,“ sagði Austin sem var staddur í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins, NATO.   

„Við munum halda áfram að einblína á þessi mál. Ég mun hins vegar ekki taka þátt í einhverjum vangaveltum varðandi Taívan,“ sagði hann við fréttamenn. 

Joe Biden hjá CNN í gær.
Joe Biden hjá CNN í gær. AFP

Óhætt er að segja að Biden hafi ært óstöðuga, hvað varðar samskipti Kína og Bandaríkjanna, í gær þegar hann sagði að Bandaríkin hefðu gert varnarsamkomulag við Taíva, sem er bandamaður Bandaríkjanna en landsvæði sem kínversk stjórnvöld segja að tilheyri Kína.

Á fundi hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN var forsetinn spurður hvort Bandaríkin myndi koma Taívan til aðstoðar ef Kína myndi gera innrás. „Já,“ var svar forsetans. „Við erum skuldbundin til að gera það.“ 

Talsmenn kínverskra stjórnvalda brugðust illa við þessum ummælum. Talsmaður utanríkisráðuneytisins sagði að stjórnvöld í Washington „ættu að haga sér og tala varlega hvað varðar málefni Taívans“.

Taívanskar F-16 herþotur á flugi.
Taívanskar F-16 herþotur á flugi. AFP
mbl.is