Dýraathvörf í Bretlandi yfirfull eftir faraldurinn

Hope Rescue, hundaathvarf í Wales í Bretlandi, segir að fjöldi …
Hope Rescue, hundaathvarf í Wales í Bretlandi, segir að fjöldi dýra sem óskað sé eftir að athvarfið taki við sé sá mesti í 15 ára sögu þess. AFP

Yfir 3,2 milljónir gæludýra voru keypt í Bretlandi er útgöngubönn stóð yfir vegna Covid-19. Ljóst er að stór hluti kaupendanna hefur séð eftir ákvörðun sinni en dýraathvörf í Bretlandi standa nú í ströngu við að koma öllum flækingsdýrum að, þar sem fjöldi yfirgefinna gæludýra hefur náð nýjum hæðum.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Hope Rescue, hundaathvarf í Wales í Bretlandi, segir að fjöldi dýra sem óskað sé eftir að athvarfið taki við sé sá mesti í 15 ára sögu þess. Þá gerir athvarfið ráð fyrir að þróunin verði sú sama næstu tvö árin. 

Allar björgunarmiðstöðvar undir miklu álagi

Starfsfólk athvarfsins segir við fréttastofu BBC að sumir hundaeigendur hafi hringt í athvarfið og látið eins og gæludýr þeirra væri flækingshundur og fullyrða að þau hafi fundið dýrið yfirgefið, þegar raunin er alls ekki sú.

„Við verðum að taka við flækingshundum og þess vegna hoppa falskir flækingar í röðinni á undan hundum sem eru í raun og veru yfirgefnir,“ sagði Sara Rosser, yfirmaður velferðarmála hjá dýraathvarfinu.

„Í augnablikinu er það sem við erum að heyra, frá öllum björgunarmiðstöðvum sem við vinnum með, að þær séu líka fullar og að þær séu undir miklu álagi.“

mbl.is