Setja lög um álag vegna heimanáms

Frá skólastofu í Hong Kong.
Frá skólastofu í Hong Kong. AFP

Kína samþykkti í dag ný lög sem eiga að minnka það álag sem börn þurfa að þola vegna heimavinnu og einkakennslu utan hefðbundins skólatíma. Ríkisfjölmiðill í Kína greinir frá en þetta er hluti af átaki þar í landi til þess að draga úr þeirri gífurlegu samkeppnismenningu sem ríkir innan kínverska menntakerfisins. 

Ríkisstjórnin hefur sett fjölda reglna til þess að draga úr skaðlegum eiginleikum samkeppni meðal barna. Þar á meðal var börnum bannað að spila nettölvuleiki lengur en þrjár klukkustundir á viku til að sporna við fíknivanda þeirra.

Þá hefur öllum fyrirtækjum sem bjóða einkakennslu fyrir nemendur verið gert að breyta rekstrarfyrirkomulagi sínu svo hún sé öll óhagnaðardrifin. 

Eiga að fylgjast betur með börnum

Stjórnum í héröðum Kína var skipað að fylgjast betur með börnum og nemendum til þess að minnka álag á þeim, sérstaklega hvað varðar heimanám og tómstundastarf.

„Foreldrar verða að dreifa tíma nemenda á skynsamlegan máta á milli lærdóms, hvíldar, tómstunda og hreyfingar. Byrði námsins má ekki verða of mikil fyrir börnin en auk þess þarf að verja þau fyrir netfíkn,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir sjónvarpsstöðinni Xinhua sem vísar til hinna nýju laga. 

Lögin taka gildi 1. janúar næstkomandi. Prófakerfið í Kína er mjög samræmt þannig að börn á öllum aldri fara reglulega í próf alla sína skólagöngu. Á 18. aldursári fara þau svo í inngöngupróf í háskóla, sem er kallað Gaokao, en niðurstaða þess getur ráðið miklu um möguleika barnanna til framtíðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert