Enginn í varðhaldi vegna morðsins

Rapparinn Einár var skotinn til bana í Svíþjóð síðasta fimmtudag.
Rapparinn Einár var skotinn til bana í Svíþjóð síðasta fimmtudag. AFP

Fjöldi fólks hefur verið yfirheyrður vegna morðsins á sænska rapparanum Einári en þó hefur enginn verið handtekinn vegna málsins enn sem komið er.

Frá þessu er greint á vef SVT.

Nils Grönberg, sem gekk einnig undir listamannsnafninu Einár, átti að bera vitni í réttarhöldum gegn glæpasamtökunum Vår­bynät­verket í Encrochat-mál­inu í næstu viku. Hann var skotinn til bana í Stokkhólmi á fimmtudag.

Svíar hafa lagt blóm og kerti nálægt því svæði er …
Svíar hafa lagt blóm og kerti nálægt því svæði er rapparinn lést. AFP

Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um hvort ákveðinn hópur eða einstaklingar liggi undir grun. „Ef svo væri þá gæti ég samt ekki tjáð mig um það,“ sagði Carina Skagerlind, talsmaður lögreglunnar. Hún bætti þó við að rannsóknin væri í fullum gangi og að margt væri í gangi.

Hafa fengið ábendingar

Marina Chirakova saksóknari vildi ekki tjá sig um hvernig rannsókninni miðaði áfram og sagði eingöngu að venjubundið ferli væri í gangi.

Lögreglan biðlar til fólks sem telur sig hafa gagnlegar upplýsingar um málið að setja sig í samband við hana en þó nokkur fjöldi símtala hefur nú þegar borist með ábendingum.

mbl.is