Segir árásina vera hryðjuverk

Einn er látinn og fimm særðir eftir árásina í Úganda.
Einn er látinn og fimm særðir eftir árásina í Úganda. AFP

Forseti Úganda, Yoweri Museveni, sagði í morgun að hryðjuverkaárás hefði verið framin í höfuðborg landsins, Kampala, og heitir því að finna þá sem frömdu verkið. Einn er látinn og fimm særðir.

Lögreglan í landinu segir að árásin hafi átt sér stað klukkan níu í gærkvöldi á veitingastað þar sem grillað var svínakjöt. Samkvæmt forsetanum skildu þrír einstaklingar eftir plastpoka á staðnum sem síðar sprungu. 

Einn lést í árásinni og fimm særðust.

„Almenningur ætti ekki að óttast, við munum sigra þessa glæpastarfsemi eins og við höfum sigrað alla aðra glæpastarfsemi sem framin er af svínunum sem virða ekki lífið,“ sagði Museveni á Twitter í dag.

Segja hryðjuverkaárásir líklegar í Úganda

8. október síðastliðinn lýsti Ríki íslams því yfir að það hefði framið sína fyrstu árás í Úganda á lögreglustöð í landinu. Engin sprenging eða meiðsl voru tilkynnt af yfirvöldum né fjölmiðlum í landinu. Lögreglan staðfesti síðar að minniháttar atvik hafi átt sér stað en veitti ekki frekari upplýsingar.

Nokkrum dögum síðar uppfærðu bæði Bretland og Frakkland ferðaráðgjöf sína fyrir Úganda og hvöttu til árvekni á fjölmennum svæðum og opinberum stöðum eins og veitingastöðum, börum og hótelum.

„Hryðjuverkamenn eru mjög líklegir til að reyna að gera árásir í Úganda. Árásir gætu verið tilviljunarkenndar, þar á meðal á stöðum sem ferðamenn heimsækja," segir í uppfærðri ráðgjöf Bretlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert