Bólusettir í áhættu, smitaðir í meiri áhættu

Fylgni fannst á milli Guillain-Barre heilkennisins og Astra-Zeneca bóluefnisins, hún …
Fylgni fannst á milli Guillain-Barre heilkennisins og Astra-Zeneca bóluefnisins, hún var þó ekki jafn mikil og á milli heilkennisins og Covid-19. AFP

Bóluefni gegn Covid-19 kunna að valda sjaldgæfum taugasjúkdómum. Hættan á slíkum sjúkdómum er þó umtalsvert meiri hjá þeim sem smitast af Covid-19. Þetta má lesa úr niðurstöðum umfangsmikillar rannsóknar frá Bretlandi.

Læknar segja að niðurstöður rannsóknarinnar renni enn sterkari stoðum undir mikilvægi bólusetninga, að því er fram kemur í frétt BBC.

Skoðuð voru læknisfræðileg gögn 32 milljón einstaklinga í Englandi, til þess að reyna að koma auga á hvers kyns sjaldgæfar aukaverkanir í kjölfar bólusetninga. Niðurstöður rannsóknarinnar er að finna hér

Ástand taugakerfis einstaklinga, mánuð eftir fyrstu sprautu af bóluefni, var borið saman við taugakerfi einstaklinga mánuði eftir jákvæða niðurstöðu úr Covid-19 skimun.

Fylgni milli Astra-Zeneca og Guillain-Barre

Sérstaklega var leitast við að koma auga á einkenni heilkennisins Guillain-Barre, sem orðað hefur verið við tiltekin bóluefni. Niðurstöður leiddu í ljós 38 slík tilfelli, umfram þá tölu sem telst eðlileg miðað við hefðbundna tíðni sjúkdómsins,  fyrir hverja 10 milljón einstaklinga, sem voru bólusettir með Astra-Zeneca bóluefninu.

Innvortis heilablæðingar voru einnig skoðaðar. Niðurstöður töldu 60 tilfelli, umfram hefðbundið hlutfall, af hverjum 10 milljónum einstaklinga sem bólusettir voru með Pfizer bóluefninu.

Þannig er ljóst að einhver fylgni er á milli þessara heilsubresta, og bólusetninga. Aftur á móti var fylgnin töluvert meiri hjá þeim sem höfðu smitast af Covid-19.

Meiri fylgni milli Covid-19 og Guillain-Barre 

Umfram tilfelli af Guillain-Barre heilkenninu, voru 145 á hverjar 10 milljónir einstaklinga.

Þá voru 123 umfram tilfelli af heilabólgu fyrir hverjar 10 milljónir einstaklinga og 163 umfram tilfelli af heilsubrestum sem stöfuðu af því að ónæmiskerfið hefði áhrif á taugar og vöðva.

Líkur á innvortis heilablæðingum jukust nokkra daga eftir að einstaklingar greindust með Covid-19, en drógust svo saman á ný eftir því sem lengri tími leið frá sýnatöku.

Rannsakendur endurtóku rannsóknina í Skotlandi, með minna þýði fullorðinna einstaklinga og komust að sömu niðurstöðu hvað varðaði fylgnina milli Astra-Zeneca og Guillain-Barre heilkenninu.

Þeir fundu aftur á móti ekki neina fylgni milli Pfizer og heilablæðingar, líkt og á Englandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert