Japanska prinsessan loksins gengin út

Mako og Kei giftu sig við lágstemmda athöfn á Grand …
Mako og Kei giftu sig við lágstemmda athöfn á Grand Arc hótelinu í Tókíó, Japan í dag. AFP

Mako, prinsessa af Japan og barnabarn Akihitos keisara, giftist háskólaástinni sinni Kei Komuro við lágstemmda athöfn í dag. Parið hefur þurft að sæta mikilli gagnrýni síðan það trúlofaði sig árið 2017, þar sem Kei er ekki konungborinn.

Afsalaði sér konunglega titlinum

Samkvæmt reglum keisarafjölskyldunnar afsalaði hin þrítuga Mako sér konunglega titlinum þegar hún giftist Kei, sem er jafngamall henni og starfar fyrir bandaríska lögfræðistofu, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

„Fyrir mér er Kei ómissandi. Hjónaband okkar er nauðsynlegt skref í áttina að því að vernda hjörtu okkar,“ sagði hún í samtali við blaðamenn eftir hjónavígsluna.

„Ég hef verið hrædd, fundið fyrir sorg og sársauka þegar einhliða sögusagnir hafa breyst í umfjallanir sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum,“ bætti hún við.

Parið hefur hlotið mikla gagnrýni síðan það ákvað að trúlofa …
Parið hefur hlotið mikla gagnrýni síðan það ákvað að trúlofa sig árið 2017. AFP

Frá því parið tilkynnti trúlofun sína 2017 hefur það einnig þurft að sitja undir ásökunum vegna meintra fjárhagsörðugleika fjölskyldu Kei.

Eftir langa bið gengu þau loks í hjónaband og kusu að gera það í einrúmi, fjarri sviðsljósi almennings, sem hefur ekki alltaf verið þeim góður.

Mako afþakkaði einnig háa fjárhæð sem konungbornum konum í Japan er vanalega gefin við giftingu. Fjárhæðin hljóðar upp á 153 milljónir jena, jafnvirði 173 milljóna króna. Nýgiftu hjónin eru nú sögð ætla að flytja til Bandaríkjanna.

Nýgiftu hjónin hneigja sig fyrir blaðamönnum að hjónavígslunni lokinni.
Nýgiftu hjónin hneigja sig fyrir blaðamönnum að hjónavígslunni lokinni. AFP

Prinsessan þróaði með sér áfallastreituröskun

Talsmaður keisaraembættisins í Japan segir prinsessuna fyrrverandi hafa þróað með sér flókna áfallastreituröskun vegna slæmrar útreiðar í fjölmiðlum.

„Ég elska Mako. Við fáum bara eitt líf og ég vil að við eyðum því með þeim sem við elskum,“ segir Kei.

„Mér þykir leitt hvað Mako hefur þurft að líða mikið fyrir rangar ásakanir.“

Ákveðið var að nýgiftu hjónin myndu ekki svara fyrirspurnum blaðamanna að hjónavígslunni lokinni til að draga úr álagi á Mako, að sögn talsmanns keisaraembættisins í Japan.

Í yfirlýsingu til blaðamanna segir hún ástand sitt þó ekki gott.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert