Lést í kjölfar áverka 5 árum eftir árásina

Fórnarlamba árásarinnar minnst á torginu.
Fórnarlamba árásarinnar minnst á torginu. AFP

Sascha Hüsges sem slasaðist alvarlega þegar hann reyndi að koma fórnarlömbum til hjálpar eftir að árásarmaður ók flutningabíl inn í mannfjölda á jólamarkaði í miðborg Berlínar í desember 2016, er nú látinn. Hann varð þar með þrettánda fórnarlamb árásarinnar. Um 50 slösuðust einnig og margir alvarlega.

BBC greinir frá.

Hüsges fékk bjálka í höfuðið og hlaut alvarlega höfuðáverka. Hann hefur þurft sólarhringsumönnun síðan. Eiginmaður hans segir hann hafa látist vegna sýkingar sem orsakaðist af langvarandi veikindum eftir slysið. Hann var 49 ára.

Hüsges var með þeim fyrstu á vettvang árásarinnar sem gerð var á jólamarkaðnum á Breitscheidplatz í Berlín. „Hann hljóp strax að stað til að hjálpa en kom fljótlega aftur því hann hafði slasast á höfði,“ sagði eiginmaður hans, Hartmut Hüsges í samtali við Tagesspiegel árið 2019. Í kjölfarið féll hann svo í dá.

Eftir að hann var útskrifaður af sjúkrahúsi fékk hann sólarhringsumönnun á heimili þeirra hjóna. 

Talsmaður ættingja fórnarlamba árásinnar og þeirra sem lifðu af, hefur óskað eftir því að nafn Hüsges verði bætt við þrepin á Kaiser Wilhelm minningarkirkjunni sem stendur á torginu þar sem árásin varð.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á árásinni, en sá sem keyrði flutningabílinn hét Anis Amri og var frá Túnis. Hann flúði til Ítalíu og var skotinn til bana af lögreglunni í Mílanó nokkrum dögum síðar.

mbl.is