Áratugur valdarána í Afríku

Þetta kort sýnir þau valdarán sem hafa verið framin í …
Þetta kort sýnir þau valdarán sem hafa verið framin í Afríku síðastliðinn áratug. Kort/mbl.is

Herinn í Súdan hefur hrifsað til sín völdin í landinu. Þarna er á ferðinni nýjasta valdaránið af mörgum í Afríku síðasta áratuginn. 

Súdan, 2021

Eftir margra vikna spennu á milli hersins og þeirra sem höfðu farið með völd í Súdan síðan Omar al-Bashir hrökklaðist frá völdum fyrir tveimur árum, handtók herinn forsætisráðherrann Abdalla Hamdok ásamt fleiri ráðamönnum. Herinn er sagður hafa neitað að styðja „valdarán“ þeirra. 

Súdanski hershöfðinginn Abdel Fattah al-Burhan á blaðamannafundi á þriðjudag.
Súdanski hershöfðinginn Abdel Fattah al-Burhan á blaðamannafundi á þriðjudag. AFP

Gínea, 2021

Hermenn undir stjórn hershöfðingjans Mamady Doumbouya tóku völd í vesturafríska ríkinu í september og handtóku 83 ára forsetann Alpha Conde. Hann varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti landsins árið 2010 eftir mörg ár í fangelsi. Í fyrra vakti hann mikla reiði er hann breytti stjórnarskránni til að hann gæti boðið sig fram þriðja kjörtímabilið.

Malí, 2020 og 2021

Forsetanum Ibrahim Boubacar Keita var steypt af stóli í ágúst 2020 eftir marga mánaða mótmæli á götum úti. Spilling, aukin umsvif íslamskra hryðjuverka­hópa og stöðnun í hagkerfi landsins hefur valdið mikilli ólgu í vesturafríska lýðveldinu. Í maí á þessu ári tók herinn yfir á nýjan leik eftir að leiðtogar bráðabirgðastjórnvalda fjarlægðu hermenn úr lykilstöðum í landinu. Hershöfðinginn Assimi Goita lifði af morðtilraun í júlí síðastliðnum. Eftir alþjóðlegan þrýsting hét hershöfðinginn því að halda frjálsar kosningar í síðasta lagi í febrúar á næsta ári.

Súdan, 2019

Einræðisherrann Omar al-Bashir missti völdin í hendur hersins eftir þrjátíu ár við völd í apríl 2019 eftir fjögurra mánaða mótmæli á götum úti. Þau hófust eftir að verð á brauði þrefaldaðist í landinu. Yfir 250 manns létust í mótmælunum. Bráðabirgðastjórn tók við í ágúst 2019 og forsætisráðherra var skipaður skömmu síðar.

Zimbabwe, 2017

Robert Mugabe, sem hafði stjórnað landinu með harðri hendi í 37 ár eftir að það öðlaðist sjálfstæði, féll af stalli árið 2017. Herinn og liðsmenn úr hans eigin flokki, ZANU-PF, skiptu honum út fyrir fyrrverandi varaforsetann Emmerson Mnangagwa. Mugabe lést í Singapúr tveimur árum síðar, 95 ára gamall.

Burkina Faso, 2015

Innan við ári eftir brotthvarf forsetans Blaise Compaore eftir byltingu var forsetinn Michel Kafando felldur af stalli í valdaráni sem hans eigin öryggisverðir stóðu fyrir árið 2015. Innan við viku síðar komst Kafando aftur til valda eftir að leiðtogum valdaránsins mistókst að fá nægan stuðning, eða þangað til kosningar voru aftur haldnar í nóvember.

Mið-Afríkulýðveldið, 2013

Uppreisnarmenn úr röðum Seleka, sem flestir er múslimar, réðust inn í höfuðborgina Bangui árið 2013 og ruddu Francois Bozize, sem er kristinn, úr vegi. Hann hafði hrifsað til sín völdin í landinu áratug áður. Leiðtogi Seleka, Michel Djotodia, lýsti því yfir að hann væri forseti. Mikil ringulreið ríkti í landinu í kjölfarið þar sem liðsmenn Seleka börðust gegn hópum úr röðum kristinna og andatrúarhóps sem kallast anti-Balaka.

Egyptaland, 2013

Herinn tók völdin af fyrsta lýðræðislega kjörna leiðtoga Egyptalands, íslamistanum Mohamed Morsi, árið 2013 eftir mikil mótmæli á götum úti. Hershöfðinginn sem leiddi uppreisnina, Abdel Fattah al-Sisi, varð forseti og hóf grimmilegar aðgerðir gegn mótmælendum sínum, sem enn eru í gangi.

Gínea-Bissá, 2012

Hersveitir undir stjórn hershöfðingjans Antonio Indjai steyptu af stóli bráðabirgðaforsetanum Raimundo Pereira og fyrrverandi forsætisráðherranum Carlos Gomes yngri. Þetta var fjórða valdaránið í landinu síðan það öðlaðist sjálfstæði frá Portúgal árið 1974.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert