Haninn Okukor á leið í réttar hendur

Brons haninn Okukor.
Brons haninn Okukor. AFP

Cambridge háskóli í Bretlandi hefur skilað brons styttu af hana sem stolið var á 19. öldinni frá landsvæði sem tilheyrir nú Nígeríu.

Ákvörðun um að skila styttunni var tekin árið 2019 í kjölfar mótmæla nemenda sem kröfðust þess að hananum yrði skilað til réttmætra eigenda. Athöfn fór fram í Cambridge háskóla í Bretlandi í dag þar sem pappírar um afhendingu styttunnar voru undirritaðir.

Styttan af hananum, sem ber heitið Okukor, er einn af þeim þúsundum muna sem stolið var frá Afríku á tímum nýlendustefnunnar. Var brons styttunni stolið frá konungsríkinu Benín, sem nú er hluti af Nígeríu, árið 1897 þegar að Bretar voru með fótfestu í Afríku.

Sonita Alleyne, rektor í Cambridge, sagði ákvörðunina vera rétta og að hún væri stolt að gefa hanann til baka. „Þetta var það rétta í stöðunni. Hún tilheyrir fólkinu í Nígeríu.“

„Við erum afar glöð að sjá að munurinn, sem hefur verið frá Nígeríu í áratugi, er í góðu ásigkomulagi,“ sagði Abba Isa Tijani, yfirmaður nígerísku landsnefndarinnar um söfn og minnisvarða.

Mun þetta vera í fyrsta sinn sem bresk stofnun skilar brons mun sem tekin var frá Benín, að sögn Tijani.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert